Umferðarráð hvetur veghaldara og verktaka við framkvæmdir á götum, vegum og gangstígum fyrir almenna umferð í þéttbýli og dreifbýli til að tryggja að ýtrustu merkingar og öryggisráðstafanir séu alltaf viðhafðar á framkvæmdasvæðum. Í tilkynningu frá Umferðarráði segir að því miður sé alltof algengt að ekki sé farið að lögum og reglum um merkingar og umferðarstýringu á vegavinnusvæðum. Ábyrgð veghaldara og verktaka er mikil varðandi það að koma í veg fyrir slys á fólki og munatjón.
Nauðsynlegt er að góð umferðarmerki og skilti séu til staðar, sem gefa skýrt til kynna með góðum fyrirvara hvað er framundan og hvernig beri að aka. Tryggja skal örugga lýsingu og blikkandi aðvörunarljós eru mikilvæg. Ávallt skal halda umferðarmerkjum og endurskini hreinu. Villandi yfirborðsmerkingar ber að afmá og setja nýjar þar sem það á við. Leiðarsteina og vegrið þarf að setja niður til að aðgreina akstursstefnur og á akbrautarbrúnum til að draga úr slysahættu. Nauðsynlegt er að endurskin sé á leiðarsteinum og vegriðum.
Tryggja þarf að vegfarendum og starfsmönnum á framkvæmdasvæðum sé ekki hætta búin þar sem vegavinna fer fram eða ef vegi er raskað.
Jafnframt segir í tilkynningu Umferðarráðs að mikilvægt sé að reglur um merkingar vegavinnusvæða og eftirlit með framkvæmd þeirra verði skerptar hið allra fyrsta.