22/12/2024

Ályktun frá Sauðfjárveiki-varnarnefnd

Samkvæmt fundargerð sveitarstjórnar Strandabyggðar frá síðasta fundi í janúar var þá tekin fyrir ályktun frá Sauðfjárveikivarnarnefnd Strandabyggðar og nágrannasveitarfélaga frá 20. janúar 2010. Ályktunin er gerð vegna lungnapestar sem upp kom í sauðfé í Mið-Vestfjarðarhólfi. Gerði nefndin alvarlegar athugasemdir við fjárframlög til viðhalds og endurbyggingar Gilsfjarðarlínu og krafðist þess að þegar í stað yrði veitt nægt fjármagn til styrkingar hennar þannig að sauðfé hætti að rápa yfir línuna og sama gildir um Kollafjarðarlínu.

Krafðist nefndin þess jafnframt að Landbúnaðarráðuneytið eða Matvælastofnun sýni sauðfjárbændum stuðning í verki í samráði við sveitarstjórnir, svo útrýma megi þessari nýju pest af svæðinu.

Sveitarstjórn Strandabyggðar samþykkti samhljóða að lýsa stuðningi við ályktun nefndarinnar.