13/10/2024

Ályktanir frá fjórðungsþingi

Fréttavefurinn strandir.saudfjarsetur.is fékk rétt í þessu sendan tölvupóst með öllum ályktunum af Fjórðungsþingi Vestfirðinga sem haldið var á Patreksfirði um liðna helgi. Komst hann klakklaust á leiðarenda þrátt fyrir að enginn ljósleiðari liggi á Strandir, hvað þá hringtengdur eins og rætt er um í einni ályktuninni. Færum við Örnu Láru Jónsdóttir hjá Fjórðungssambandi Vestfjarða bestu þakkir fyrir sendinguna, en ályktanirnar sjálfar birtum við í heilu lagi hér að neðan, þá skal smellt á hnappinn Lesa meira. Reikna má með að íbúar á Ströndum hafi gaman af og finnist fróðlegt að sjá hver helstu áhersluatriði sveitarstjórnarmanna í Barðastrandarsýslum, á Vestfjörðum, í Djúpi og á Ströndum eru nú um stundir.

Ályktun um sjávarútvegsmál

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið á Patreksfirði 2.- 3. september 2005 lýsir yfir verulegum áhyggjum yfir þeirri stöðu sem nú blasir við sjávarútveginum á Vestfjörðum.

Miðað við núverandi fiskveiðistjórnun er byggðakvótinn einn af þeim fáu möguleikum   sem stjórnvöld í landinu hafa til að bregðast við þeirri röskun sem minnkandi veiðiheimildir hafa á einstökum svæðum.

Fjórðungsþingið vill beina þeim tilmælum til stjórnvalda, að leita leiða til að auka nýliðun í sjávarútvegi.

Ályktun um fjölgun opinberra starfa á Vestfjörðum

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið á Patreksfirði 2.- 3. september 2005 skorar á stjórnvöld að fylgja eftir tillögu í Vaxtarsamningi Vestfjarða er varðar fjölgun opinberra starfa í fjórðungnum.  Markmiðið með tillögunni er að störfum í opinberri þjónustu á Vestfjörðum fjölgi og þekking og reynsla núverandi þjónustustofnana verði aukin og nýtt til fullnustu.

Ályktun um menningarsamning

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið á Patreksfirði 2.- 3. september 2005 ítrekar þá ósk að komið verði á menningarsamningi milli menntamálaráðuneytisins og Fjórðungssambands Vestfirðinga.
 
Brýnt er að íbúar á Vestfjörðum njóti jafnræðis á við aðra í opinberum fjárveitingum til menningarmála. Blómlegt menningarlíf er nauðsynlegt til þess að svæðið eflist og er ein forsenda þess að íbúum á svæðinu fjölgi á næstu árum.

Ályktun um Fjölmenningarsetur

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið á Patreksfirði 2.- 3. september 2005, skorar á stjórnvöld að festa í sessi starfsemi Fjölmenningarseturs og gera stofnunina að landsmiðstöð í málefnum innflytjenda á Íslandi samkvæmt tillögu í Vaxtarsamningi Vestfjarða.

Tillaga Vaxtarsamnings Vestfjarða er, að Fjölmenningarsetur á Vestfjörðum verði sjálfstæð stofnun sem heyri undir félagsmálaráðuneytið.  Sett verði löggjöf um starfsemi stofnunarinnar og fjárhagslegur grundvöllur hennar tryggður með framlögum á  fjárlögum.  Aukið verði við stöðugildi stofnunarinnar til að mæta nýjum þörfum og núverandi verkefnum.  Fáir staðir á landinu henta betur undir slíka starfsemi vegna þess fjölmenningarlega samfélags sem til staðar er.

Fjölmenningarsetrið verði miðstöð upplýsinga, menntunar og rannsókna í málaflokknum. 

Með áframhaldandi og efldri starfsemi Fjölmenningarseturs skapast samstarfsvettvangur í málefnum innflytjenda fyrir stjórnvöld og þannig er hægt að samræma þjónustu ríkis, sveitarfélaga og frjálsra félagasamtaka við innflytjendur. 

Ályktun um áhrif hágengis á atvinnulíf á Vestfjörðum

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið á Patreksfirði 2. og 3. september 2005 hefur áhyggjur af háu gengi íslensku krónunnar og þeim afar neikvæðu áhrifum sem það hefur á vestfirskt atvinnulíf. 

Leiða má líkur að því að gengi íslensku krónunnar haldist áfram hátt.  Slíkt stefnir vestfirsku atvinnulífi, sem byggir að mestu leyti á útflutningi, í voða. 

Stóriðjuframkvæmdum í öðrum landshlutum er hvergi nærri lokið, stækkun álversins að Grundartanga og í Straumsvík og nýtt álver í Helguvík og á Norðurlandi eru fáein dæmi.  Líkur eru á því að það þenslutímabil sem boðað var í tengslum við stóriðjuframkvæmdir á Austurlandi lengist einnig verulega. 

Þá liggur fyrir mikið innstreymi erlends fjármagns á skuldabréfamarkað á Íslandi, sem auðvelt er að sýna fram á að hefur gríðarleg áhrif til styrkingar á gengi íslensku krónunnar.  Slík þróun og þær framkvæmdir sem nefndar eru að ofan eru að ganga afar nærri vestfirsku atvinnulífi.

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga kallar fyrirtæki og stofnanir á Vestfjörðum til samráðs til að skoða áhrif hás gengis á vestfirsk atvinnulíf og beinir þeirri áskorun til stjórnvalda að brugðist verði strax við þessu ástandi með aðgerðum sem haft geta áhrif til veikingar íslensku krónunnar.

Ályktun um aðgerðir til að stöðva fólksflótta

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið á Patreksfirði 2. og 3. september 2005, lýsir yfir áhyggjum sínum á brottflutningi frá svæðinu. Þróun í aldurssamsetningu Vestfirðinga er einnig verulegt áhyggjuefni,  en ungu fólk á aldrinum 21- 35 ára hefur fækkað mest á Vestfjörðum.

Viðvarandi samdráttur í hefðbundnum atvinnugreinum hefur leitt til þess að dregið hefur úr þjónustu og störfum á landbyggðinni hefur fækkað. Ekki hafa skapast atvinnutækifæri fyrir ungt fólk og erfitt hefur verið að fá unga Vestfirðinga til að flytjast heim eftir nám. 

Efla þarf frumkvöðlastarf meðal ungs fólks og auka þar með nýsköpun á landsbyggðinni.
 
Fjórðungsþing skorar á iðnaðarráðherra að skoða leiðir til þess að sporna við fólksflótta ungs fólks frá Vestfjörðum.

Breyting á lögum og þingsköpum Fjórðungssambands Vestfirðinga

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið 2. og 3. september á Patreksfirði felur stjórn að endurskoða lög og þingsköp Fjórðungssambandsins í því augnamiði að kveða fastar á um seturétt, málfrelsi og tillögurétt þeirra sem boðaðir eru á Fjórðungsþing, annarra en kjörinna þingfulltrúa.

Hafa skal til hliðsjónar það verklag sem þekkist í öðrum landshlutasamtökum.

Ályktun um landbúnaðarmál 

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið á Patreksfirði 2. og 3. september 2005 felur stjórn Fjórðungssambandsins að láta gera úttekt á stöðu landbúnaðarins á Vestfjörðum.

Ályktun um vegamál

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið á Patreksfirði 2.- 3. september 2005 ítrekar fyrri ályktanir um bættar samgöngur í fjórðungnum, sem full samstaða er um.

Rík áhersla er lögð á að samgönguáætlun sambandsins frá 2004 gangi eftir og er jafnframt lýst yfir áhyggjum af áhrifum samgönguáætlunar stjórnvalda fyrir árin 2005-2008 á efnahagslíf á Vestfjörðum. Samgönguáætlun endurspeglar efnahagsstefnu stjórnvalda, sem er að draga úr þenslu í ríkisfjármálum vegna stórframkvæmda sem stjórnvöld hafa komið að í öðrum landshlutum.   Seinkun framkvæmda sem af þessu leiðir er hinsvegar á skjön við áætlun stjórnvalda um uppbyggingu Vestfjarða sem birtist í nýlegri skýrslu um Vaxtarsamning fyrir Vestfirði.

Mikil aukning hefur orðið í þungaflutningum á landi.   Þrátt fyrir miklar nýframkvæmdir og endurbætur á vegakerfi Vestfjarða eru enn eftir mislangir vegakaflar með óbundnu slitlagi. Þessir kaflar bera ekki slíka aukningu þungaflutninga og eru nú flöskuhálsar í landflutningum. Hefur þetta nú þegar valdið hækkun flutningskostnaðar og um leið hækkun vöruverðs vegna olíugjalds sem tekið var upp 1.júlí 2005 og kemur til viðbótar þeim efnahagsáhrifum sem áður er lýst.  

Enginn annar landshluti býr við sambærilegar aðstæður í vegamálum og Vestfirðir og það er því sanngjörn krafa að samgönguverkefni á Vestfjörðum séu sett í forgang.  Með þeim hætti er að hluta brugðist við samdrætti í efnahagslífi á Vestfjörðum á uppgangstímum í öðrum landshlutum. Slíkt er grunnforsenda  þess að bæta megi samkeppnisstöðu útflutningsfyrirtækja og er í takt við stefnumörkun stjórnvalda um uppbyggingu svæðisins. 

Þrátt fyrir töluverðar samgöngubætur í landshlutanum undanfarin ár eru enn viðamikil verkefni eftir sem kveðið er á um í samgönguáætlun Fjórðungssambandsins, s.s tengingar þéttbýlisstaða með bundnu slitlagi, Arnkötludalsvegur (Tröllatunguvegur), uppbygging vegar um Ísafjarðardjúp og Vestfjarðavegar ásamt gerð jarðgangna milli Dýrafjarðar og Vatnsfjarðar. Fjórðungsþing skorar á samgönguyfirvöld að hefja nú þegar undirbúning að gerð tvennra jarðgangna á þessari leið í samræmi við samþykktir Fjórðungsþings 2004. Litið verði á gerð gangnanna sem eina framkvæmd og verði hafist handa við þau eigi síðar en árið 2008.

Til viðbótar ofangreindu, leggur Fjórðungsþing áherslu á að tryggja þarf fullkomið öryggi vegfarenda á milli byggðarlaganna við Ísafjarðardjúp. Grjóthrun á Óshlíð í liðinni viku er því til staðfestu að tafarlausra aðgerða er þörf á þessari leið. Vakin er athygli á hugmyndum þess efnis að Ofanflóðasjóður, að undangengnum lagabreytingum, kæmi að fjármögnun framkvæmda við gerð jarðgangna milli Bolungarvíkur, Ísafjarðar og Súðavíkur.

Fjórðungsþingið leggur ríka áherslu á að þingmenn  Norðvesturkjördæmis fylgi eftir þeirri stefnu í samgöngumálum Vestfjarða sem vestfirskir sveitarstjórnarmenn hafa markað. Þingið skorar á stjórnvöld að beina auknum fjármunum til uppbyggingar samgöngumannvirkja á Vestfjörðum. 

Ályktun um fjarskipti

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið á Patreksfirði 2.- 3. september 2005 ítrekar fyrri ályktanir um þéttingu GSM sambands á þjóðvegum á milli þéttbýliskjarna og á öðrum fjölförnum leiðum.  Með uppsetningu á nokkrum GSM sendum á Vestfjörðum er hægt að koma á samfelldu GSM sambandi. Aukinn fjöldi ferðamanna á svæðinu kallar á betri þjónustu og krafa nútímans er að vera í GSM sambandi sem víðast, auk hins augljósa öryggis sem í því felst, þar sem víða er strjálbýlt.

Ljóst er að fyrirtæki á Vestfjörðum standa höllum fæti þegar kemur að öryggi ljósleiðarans, þar sem þetta er eini landshlutinn sem ekki býr við hringtengingu.  Því fagnar Fjórðungsþingið þeirri samþykkt Alþingis um stefnu í fjarskiptamálum fyrir árin 2005–2010 sem samþykkt var á Alþingi í maí s.l. 

 Á síðastliðnum tveimur árum hefur það gerst í þrígang að ljósleiðarinn um Vestfirði hefur rofnað og hefur það valdið einstaklingum, fyrirtækjum og stofnunum á svæðinu miklum óþægindum og tjóni.  Sífellt fleiri stofnanir og fyrirtæki eru algjörlega háð háhraðatengingum til að geta sinnt starfsemi sinni.  Það er krafa þingsins að öll heimili, einstaklingar og fyrirtæki hafi aðgang að ADSL tengingu.

Fjórðungsþing skorar á samgönguráðherra að beita sér fyrir því að verkefni á sviði fjarskiptamála á Vestfjörðum verði sett í forgang.

Ályktun um Vaxtarsamning Vestfjarða

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga, haldið á Patreksfirði 2.- 3. september 2005 fagnar undirritun Vaxtarsamnings Vestfjarða.  Með framkvæmd hans mun samkeppnishæfni svæðisins aukast.

Í vaxtarsamningi Vestfjarða eru 29 tillögur og þar af eru 16 sem skilgreindar hafa verið í þrjá klasa, þ.e.:  sjávarútvegsklasa, ferðaþjónustu- og menningarklasa og rannsókna- og menntunarklasa. Með samningnum skapast sóknarfæri sem tryggt geta framtíð byggðar á Vestfjörðum.

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga hvetur stjórnvöld og aðra aðila að vaxtarsamningi Vestfjarða til að standa heilshugar að þeim verkefnum sem tilgreind eru í honum.

Ályktun um löggæslu í Reykhólahreppi

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga skorar á dómsmálaráðherra að beita sér fyrir úrbótum í löggæslumálum í Reykhólahreppi.   Eina trygga lausnin fyrir íbúana er sú að komið sé upp stöðu lögreglumanns á Reykhólum. 

Greinargerð.

Reykhólahreppi er þjónað frá Patreksfirði þar sem starfa fjórir lögreglumenn.   Reykhólar eru í 200 km fjarlægð frá Patreksfirði sem mun vera mesta fjarlægð þéttbýlisstaðar á Íslandi frá lögreglustöð sinni.  Þrátt fyrir þessa fjarlægð hefur ríkisvaldið ekki einu sinni skapað lögreglumönnum starfsaðstöðu af neinu tagi á Reykhólum.

Aðalatriðið er að réttur almennings til löggæslu er fyrir borð borinn í sveitarfélaginu.  Eina trygga lausnin er sú að komið sé upp stöðu lögreglumanns á Reykhólum. 

Ályktun um hafnalög 

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga haldið 2. og 3. september á Patreksfirði skorar á samgönguráðherra að beita sér fyrir því að framlengja það ákvæði í hafnalögum er kveður á um að ríkið hætti þátttöku við endurnýjun og viðhald hafnarmannvirkja í lok ársins 2006.  Nauðsynlegt er að framlengja ákvæðið út árið 2009 til að draga úr framkvæmdum á óhóflega stuttum tíma og til að létta á sveitarfélögum sem eiga erfitt með að fjármagna framkvæmdirnar á þeim stutta tíma sem eftir er.

Ályktun um raforkulög

50. Fjórðungsþing Vestfirðinga skorar á stjórnvöld að gera úttekt á áhrifum nýrra raforkulaga þegar áhrif þeirra eru að fullu komin í ljós. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga hefur ítrekað áréttað í umsögnum sínum að orkuverð til neytenda eigi ekki að hækka vegna breytinga á raforkulögum.

Þá er enn fremur ástæða til þess að staldra við þá staðreynd að aðgengi margra vestfirskra atvinnufyrirtækja að ótryggðri orku er mjög takmarkað en það skekkir mjög samkeppnishæfni þeirra við önnur fyrirtæki, jafnvel í sömu grein.

Ársreikningur 2004

Nefndin gerir ekki athugasemd við ársreikning 2004 og leggur því til að hann verði lagður fyrir þingið til samþykktar.

Fjárhagsáætlun 2006 og endurskoðuð áætlun 2005

Nefndin leggur til að fjárhagsáætlun 2006 og endurskoðuð fjárhagsáætlun 2005 með áorðnum breytingum verði samþykkt.   

Nefndin leggur til að framlög til Evrópuverkefna verði samþykkt.  Endurskoðuð áætlun fyrir fjárhagsárið 2005 og fjárhagsárið 2006, samtals 1.350.000 hvort ár og skiptist þannig að, NORCE verkefni 600 þ.kr. hvort ár og NBT verkefni 750 þ.kr. hvort ár.   Rök fyrir veitingu framlagsins er að í fjárhagsáætlunum umsækjanda til NPP sjóðs Evrópusambandsins, var gert ráð fyrir fullu mótframlagi að hálfu NPP sjóðsins.   Vegna mikillar ásóknar íslenskra aðila til NPP sjóðsins hafa framlög frá sjóðunum verið skert og því eru verkefnin ekki að fá þá fjármuni sem gert var ráð fyrir í upphafi.   Fjárhagsnefnd telur hinsvegar að Fjórðungssambandið eigi almennt ekki að veita styrki til slíkra verkefna, en gerir hér undantekningu að þessu sinni. 

Lagt er til að framkvæmdastjóra Fjórðungssambandsins verði falið að kanna launagreiðslur til stjórnarmanna hjá öðrum landshlutasamtökum og samræma launagreiðslur stjórnarmanna Fjórðungssambandsins niðurstöðum könnunarinnar.