22/11/2024

Allt á fullu í þemavikunni

Börkur Vilhjálmsson er í módelhóp í þemavikunniHópastarf þemaviku í Grunnskólanum á Hólmavík í dag: Fréttaritarar fjölmiðlahóps fóru á stúfana í býtið í morgun og höfðu njósnir af hvað hóparnir voru að bardúsa. Í Módelhóp eru sjö strákar úr 5.-7. bekk. Núna eru þeir að gera bílamódel. Í augnablikinu eru þeir allir með húfu, það eru bara strákar í hópnum og þeim gengur öllum vel. Stjórnandi hópsins er Hafþór kennari.

Í hópnum Blómin á þakinu eru níu krakkar frá 1.-4. bekk og eru að vinna með bókina Blómin á þakinu sem fjallar hún um Gunnjónu í Borg og bæ. Í dag eru þau að búa til trölladeigsmyndir í ramma, stjórnendur eru Hildur, Ester og Dúna. Það verður sýning á verkum krakkana á föstudaginn, eins og öllum öðrum verkum þemavikunnar.

Í útvarpshópnum voru Þórhallur og Kristján að senda út þáttinn sinn Morgunhanar sem er fyrsti þátturinn á morgnana. Þema þáttarins er 80's en þeir eru með þátt frá 8:00-9:00 og 17:00-18:00.

Danshópurinn var í morgun að dansa Skottís undir stjórn Önnu Birnu. Þau dönsuðu fyrir okkur dans sem heitir La Lúna. Eins og margir vita er það skylda fyrir 1-6 að mæta í danskennslu og virtust þau skemmta sér konunglega.

Í dag er verið að vinna með messing og kopar í listasmiðjunni. T.d. er búið að gera kökuspaða og krossa á hálsmen. Í dag hefur líka verið skorið út í tré og gerð mynd sem skorin var út í þrívídd.

Í dag er verið að gera hvítlauksbrauð í matreiðsluhópnum. Síðan ætla þau að gera gullkornanammi eða kökur. Í matin í dag verður kjúklingur og franskar og ís í eftirrétt, sem þau bjuggu til sjálf í gær. Hátt til 40 manns eru í mat þannig að þau hafa nóg að gera og svo þarf að ganga frá.

Krakkarnir í útivist fóru á hestbak og byrjuðu þeir á því að keyra af stað frá skólanum, við Ingólfur og Valdimar fórum með sem fréttamenn. Þegar við vorum komin þá byrjaði Victor á því að kenna okkur allar nauðsynlegar reglur eins og að vera stillt.
Ekki voru allir beint stilltir en öll sluppum við lifandi og enginn slasaðist.