Samkvæmt fréttum bb.is hefur ákvæði um bónus verið bætt inn í útboðsgögn fyrir nýjan veg um Arnkötludal. Það er á þá leið að ef verktaki kemur bundnu slitlagi á veginn fyrir 1. september 2008, verða honum greiddar 20 milljónir króna aukreitis. Magnús Valur Jóhannsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni, segir í samtali við bb.is að upphaflega hafi verið gert fyrir að vegurinn yrði kláraður með bundnu slitlagi árið 2008, en því útboði var á sínum tíma frestað til að slá á þenslu í þjóðfélaginu.
Magnús segir í viðtali við bb.is misskilning hafa komið upp á milli samgönguráðuneytis og Vegagerðarinnar, þar sem hinir síðarnefndu hafi sett í útboð að verklok vegarins skyldu vera í september 2009. Hann segir þó alltaf hafa staðið til að hægt væri að aka um veginn í lok árs árið 2008. Ef verklokin hefðu verið sett í september 2008, þá hefði Vegagerðin verið að útiloka minni verktaka frá verkinu. Magnús segir mikinn vilja hafa verið hjá samgönguráðuneyti að standa við upprunaleg verklok og því ákveðið að fara þessa leið, sem hann segir opna fyrir þann möguleika fyrir minni verktaka að finna leiðir með þessu aukna fjármagni til að klára verkið í tíma.
„Það getur komið niður á gæðum vegarins ef þeir eru unnir of hratt, við höfum séð það hér tæknimennirnir og við viljum auðvitað ekki að neitt slíkt hendi. En við erum að tala um 40 kílómetra styttingu á veginum á milli Stranda og Reykjavíkur svo það munar um minna að sú samgöngubót komist á sem fyrst,“ segir Magnús að lokum.
Tilboðin í gerð nýja vegarins um Arnkötludal verða opnuð 20. mars nk.