22/11/2024

Ágreiningur um fundargerð Atvinnumálanefndar

Á fundi sveitarstjórnar Strandabyggðar þann 8. desember varð ágreiningur um fundargerð Atvinnumálanefndar frá 2. desember sem lögð var fyrir fundinn. Endaði svo að 3 fundarmenn samþykktu fundargerðina, 1 greiddi atkvæði á móti öðrum lið hennar, en 1 greiddi atkvæði á móti fundargerðinni í heild sinni. Ekki kemur nánar fram í fundargerð sveitarstjórnar hvað ágreiningurinn snýst um, en fundargerð Atvinnumálanefndarinnar fylgir hér að neðan til fróðleiks:


"Fundur haldinn í atvinnumálanefnd Strandabyggðar miðvikudaginn 2.
desember 2009 kl. 17:00 á skrifstofu Strandabyggðar. Þorsteinn Newton
formaður setti fundinn og stjórnaði honum en aðrir fundarmenn Þorsteinn
Sigfússon, Eysteinn Gunarsson og Valdimar Guðmundsson (varamaður).
Einnig sat fundinn Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri sem ritaði
fundargerð og Viktoría Rán Ólafsdóttir og Þorgeir Pálsson frá Atvest. Eftirfarandi dagskrá lá fyrir fundinum:

  1. Yfirfara hvort tillögur sem snéru að hlutverki nefndarinnar hafi verið samþykktar innan sveitarstjórnar.
  2. Fara yfir hvernig mönnum fannst sumarið 2009 hafa komið út, hvað varðar ferðaþjónustu.
  3. Ákveða næsta þema (síðast var það ferðaþjónusta).
  4. Arnkötludalur – tækifæri.
  5. Önnur mál (Stefnumót á Ströndum).

Þá var gengið til dagskrár.

  1. Yfirfara hvort tillögur sem snéru að hlutverki nefndarinnar hafi
    verið samþykktar innan sveitarstjórnar.  Tillögurnar voru samþykktar
    samhljóða af sveitarstjórn.
  2. Fara yfir hvernig mönnum fannst sumarið 2009 hafa komið út, hvað
    varðar ferðaþjónustu. Fjallað var um fund sem haldinn var á Café Riis
    með aðilum í ferðaþjónustu í Strandabyggð og rætt um viðbrögð þeirra
    við fundinum. Þá var fjallað um útkomu sumarsins en talsverð aukning
    var á ferðamönnum til Vestfjarða en enn vantar tölur frá Hagstofunni
    þess efnis. Þá var rætt um hvort svæði eða lóðir undir ferðatengda
    þjónustu sé til staðar og hvort ekki slíkt sé nauðsynlegt fyrir nýja
    aðila. Vill meirihluti nefndarinnar láta bóka nauðsyn þess að svæðið
    milli Höfðagötu og Fiskislóðar verði skilgreint undir verslun og
    þjónustu en ekki hafnsækna starfsemi. Þá mun Viktoría koma með
    endanlegar tölur um gistinætur sumarið 2009 á næsta fundi.
  3. Ákveða næsta þema (síðast var það ferðaþjónusta). Samþykkt var að
    fela Atvinnuþróunarfélaginu að undirbúa verklýsingu og kostnaðaráætlun
    vegna þarfagreiningu fyrir þjónustu á Hólmavík enda mikil tækifæri sem
    ekki er verið að nýta í dag.   
  4. Arnkötludalur – tækifæri. Vísað til næsta fundar enda fellur sá liður vel undir þarfagreiningu fyrir þjónustu.
  5. Önnur mál. Rætt var um hversu vel heppnuð sýningin Stefnumót á
    Ströndum var og lýsir nefndin ánægju með að hún verði sett upp aftur í
    byrjun sumars.

 Fleira var ekki tekið fyrir, fundargerð lesin upp og hún samþykkt. Fundi slitið kl. 19:15."