24/11/2024

Af litlum neista …

Slökkvilið Strandabyggðar var kvatt út upp úr miðjum degi á laugardag vegna sinuelds. Eldurinn logaði neðan vegar milli bæjanna Litla-Fjarðarhorns og Ljúfustaða í Kollafirði. Greiðlega gekk að slökkva, en þó sviðnuðu um 3ha, mest í Gleraugnaflóanum og Stekkjarflóa utan við Háamel. Það fór því betur en á horfðist.  Laugardagurinn var einn sá hlýjasti sem menn muna á Ströndum, en ekki mun sá hiti hafa dugað til íkveikju, og ekki heldur hinir eldheitu ástarleikir stelksins en sinubeðjur eru hans kjörlendi. Orsaka eldsins má rekja til útleiðslu í raflínu, þannig að það kviknaði í rafmagnsstaur og glóðin úr honum kveikti í sinunni.

Að sögn Hafdísar Sturlaugsdóttur landnýtingarfræðings sem skoðaði brunasvæðið í dag er þetta yfirborðsbruni, enda landið blautt eftir rigningar að undanförnu. Þarna er mikil sina enda lítil beit í þessum hluta Kollafjarðar og tún hafa ekki verið slegin undanfarin ár. Vegurinn fram að Ljúfustöðum hélt eldinum neðan vegar. Mjög illa hefði getað farið ef land hefði verið þurrara og vindur meiri.

bottom

frettamyndir/2007/580-sinueldur2.jpg

Ljósm. Matthías Lýðsson