Aðsend grein: Indriði Aðalsteinsson, Skjaldfönn
Á þessum vettvangi hefur nokkuð verið fjallað undanfarið um kjör tófubana hjá Strandabyggð og viðleitni okkar sem þessum starfa sinna til að færa veiðina í þann farveg að sem gagnlegast væri og jafnframt kostnaðarminnst fyrir sveitarfélagið, þ.e. að leggja sem mesta áherslu á vetrarveiðina. Ég ætla þó ekki að bæta fleiri orðum í þann belg að sinni, en fjalla þó aðeins um skylt efni.
Refurinn er rándýrstegund af hundaætt, harðgerður og afar skynsamur, samanber: “Illt er að ginna gamlan ref.” Rebbi heyrir dável og er með afar þroskað lyktarskyn. Stundum hef ég komið að þar sem tófa hefur grafið sig niður í gegnum snjóskafla eða hjarn í ætisleit, ef til vill geymt þar egg eða annan feng frá sumrinu. Þá rifjast jafnan upp vísan sem ég lærði ungur um Húnvetning sem var duglegur að bjarga sér:
Vítt um byggð hann krækir klónum
karlinn sem að aldrei sefur.
Finnur æti undir snjónum
eins og gamall fjallarefur.
Áberandi refseðli hjá okkur sem á tveimur fótum göngum hefur sjaldnast verið talið viðkomandi til álitsauka heldur til bragðvísi og undirferli.
Þó er misjafnt hvað tekið er djúpt í árinni þegar fjallað er um bresti náungans. Fræg varð líkræða séra Bjarna dómkirkjuprests eitthvað á þessa leið: “Jón var einstakur hirðumaður. Það sem aðrir glötuðu fannst hjá honum.” Þessi “sjálfsbjargarviðleytni” virðist nú vera litin mildari augum upp á síðkastið, svo sem í vali sumra stjórnmálaflokka á fólki á framboðslista sína:
Í fjölmiðlunum fullt er nú
af fregnum ljótum
af langhöluðum, loðnum þrjótum
sem tölta um á tveimur fótum.
Svo ég snúi mér aftur að þeim ferfættu þá þurfum við Vestfirðingar að glíma við afleiðingar meiriháttar umhverfishneykslis sem er hinn ríkisverndaði vargur í Hornstrandafriðlandi og útstreymi hans yfir okkur síðustu 12 árin.
Sprenglærðustu refaspekingar með doktors- og prófessornafnbætur í þessum fræðum, töldu stjórnvöldum trú um, á sínum tíma, að friðlandsrebbi væri ekki haldinn neinni útþrá, en ég og fleiri mínir líkar héldu hinu gagnstæða fram.
Kom til orðahnippinga í Ísafjarðarblöðum, þar sem ég m.a. rifjaði upp þessa gömlu vísu:
Betra er að vera af guði ger
greindur bóndastauli,
en að heita hvar sem er
hámenntaður auli.
Páll Hersteinsson fékk síðan styrk 1999 til að fara norður og merkja yrðlinga og setja á þá radíósenda. Ekki var farið að vetra að nokkru gagni þegar sá fyrsti var skotinn hér á Rauðamýri og síðar um veturinn féllu þeir fleiri, bæði hjá mér og víðar. En af þessu Rauðamýrartilfelli setti ég saman eftirfarandi brag:
Refatryggð við heimahaga
höfðu bændur rægt til baga.
“Vísindin” því vildu sanna
vit og gildi kenninganna.
Líffræðingaflokkur fríður
ferðar ekki lengi bíður
og í blöðum hef ég séð
sóttist vel að merkja ref.
Haustið kom með hríðar argar.
Heldur varð þá fátt til bjargar.
Ef friðland ekki fæðu gefur
til ferðar býr sig soltinn refur.
Austur og suður heldur hjörðin.
Hverfa að baki Drangaskörðin.
Yfir jökul aðrir blýna.
Ekki spara fætur sína.
Djúpsins byggðir heilla hugann:
“Hér er fjölmörg matarsmugan!”
Lyftast vonglöð loðin stýri
– litu við á Rauðamýri.
Fjórir þeirra feigir hittu
fantagóða refaskyttu.
Svo í pósti sendir vini,
sjálfum Páli Hersteinssyni.
“Vísindanna” vöskum smið
varð þá heldur illa við.
Skynsemi fyrir skaut því loku:
“Skömmin hefur villst í þoku!”
Þegar Páll náði svo áttum aftur voru niðurstöður hans þær að verið gæti að meira en hálft annað hundrað refa yfirgæfi friðlandið árlega, en við sem næst búum teljum þann fjölda miklu meiri.
Í stillunum nú á dögunum var sporrækt og þá var tófutraðkurinn hér á Langadalsströnd slíkur að engu var líkara en fjárhjarðir á útigangi, hefðu verið þar á ferð.
Stundum finnst mér ég vera í þeirri viðleitni að fækka ref, í sporum vistmanna á Kleppi forðum tíð, en þeirra aðaliðja var víst að moka úr sandhrúgu á gólfi í poka, bera hann upp á næstu hæð og hvolfa úr honum niður um gat ofan í fyrrnefnda hrúgu. Ríkisvaldið með fyrrnefndan Pál Hersteinsson sem skjöld og skjól, ver sína vargauppsprettu í líf og blóð og metur hagsmuni refa langtum mikilvægari en hagsmuni sauðfjárbænda, varpeigenda, fuglalífs og alls almennings hér sem verður að gjalda fyrir langtum hærri kostnað sveitarfélaga vegna refaeyðingar en þyrfti að vera.
En það sem er sárast af öllu er að Bændasamtökin standa fast að baki varginum, því þó að fulltrúi þeirra í refanefnd Sivjar Friðleifsdóttur frá 2004, teldi refinn “skæðan vágest” stóð hann, með blessun bændaforystunnar, að meirihlutaáliti nefndarinnar um óbreytta refavernd hér fyrir norðan okkur.
Engin gild rök hafa komið fram fyrir þessari ósvinnu, önnur en að ferðamenn hafi gaman af að sjá rebba við náttúrulegar aðstæður. Ég hef bent á að vel mætti láta óáreitt greni við gönguleiðir á brúnum Hornbjargs, þó önnur væru unnin.
Einnig að í flestum vetrum mætti loka refinn inni með rafmagns eða refanetsgirðingu um 8 km langri úr botni Hrafnsfjarðar, um Skorarheiði í Furufjörð. Undirtektir hafa engar verið. Þvert á móti stefnir Umhverfisráðuneytið, hvatt af bæjarstjóranum á Ísafirði, að því að færa ríki refsins hér að norðurbrún Skjaldfannarfjalls og austur undir byggð í Árneshreppi.
“Seint vaknar sá sem aldrei vaknar” segir í gömlum málshætti. Ekki verður það þó sagt um forustu Skotvís sem áttaði sig loks á því í haust að refurinn er nú nær því búinn að útrýma rjúpu á Vestfjörðum. Leggur stjórnin því til að grenjavinnsla og refaveiðar í friðlandinu verði færðar aftur til fyrra horfs.
Nú er Búnaðarþingi nýlega lokið og bændaforustan eitthvað farin að hysja upp um sig, samanber að úthýsa klámhundum um Bændahöllinni. Megum við vestfirskir bændur kannski vænta þess, að forysta stéttarinnar fari að sjá að sér varðandi samstofna ferfætlinga í Hornstrandafriðlandi?
Indriði Aðalsteinsson, Skjaldfönn