Eins og gefur að skilja þá er Strandamenn að finna um allt land en burtfluttir Strandamenn eru margfalt sinnum fleiri en þeir sem heima sitja og gæta átthaganna. Það er erfitt að gera sér grein fyrir fjölda þeirra sem gjarnan kenna sig við Strandir þegar hugsað er til allra þeirra sem eru fæddir á Ströndum, svo ekki sé talað um afkomendur þeirra eða þeirra sem hafa búið á Ströndum í lengri eða skemmri tíma. Strandamenn hafa dreift úr sér um víða veröld og hér á landi er nokkur byggðarlög sem oft á tíðum er engu líkara en séu einskonar útibú frá Ströndum, s.s. Bolungarvík, Akranes og Skagaströnd. Á Hornafirði búa nokkrir Strandamenn og þar á meðal Guðbrandur Jóhannsson frá Heydalsá við Steingrímsförð.
Guðbrandur hefur komið víða við í ferðaþjónustu þar austur frá og rekur ferðaþjónustufyrirtækið Gudis ehf. Hann hóf rekstur bátasiglinga á Jökulsárlóni árið 1985 og síðar hóf hann daglegan akstur yfir sumartímann með ferðamenn inn á Lónsöræfi. Á milli þess stundar hann skólaakstur og tekur gjarnan þátt í gerð kvikmynda sem eru teknar upp á svæðinu, og hefur m.a. aðstoðað til við gerð tveggja James Bond mynda og kvikmyndinni um hetjuna Batman svo fátt eitt sé nefnt ásamt því sem hann aðstoðar við gerð hverskyns auglýsingagerðar sem er vinsælt að taka upp í landslaginu þar um slóðir. Strandamaðurinn Guðbrandur rekur einnig hinn glæsilega vef vatnajokull.is þar sem þjónusta hans og annarra þar um slóðir er kynnt.
Það er enginn vafi á því að Guðbrandur tekur vel á móti öllum Strandamönnum, eigi þeir leið um hans slóðir og þyrstir í hverskyns ævintýri sem hann bíður upp á.
Guðbrandur Jóhannsson a siglingu um Jökulsárlón
Guðbrandur í jöklaklifri
Á ferð um Lónsöræfi
Myndir: vatnajokull.is