09/09/2024

Aðgerðir til að styrkja starfsemi rækjuvinnslustöðva

Vestfjarðanefndin sem sett var á laggirnar fyrir um mánuði síðan hefur skilað tillögum til forsætisráðherra þar sem lagðar eru til hverskyns aðgerðir til að styðja við atvinnulíf á kjálkanum. Meðal annars er fjallað um stöðu rækjuvinnslu í skýrslu nefndarinnar og lagt til að Byggðastofnun frysti vaxtagreiðslur og afborganir af lánum rækjuverksmiðja hjá Byggðastofnun í fimm ár. Staða fyrirtækja í rækjuvinnslu hefur verið erfið á undanförnum árum. Á Vestfjörðum eru starfandi þrjár rækjuvinnslur þar sem starfa alls um hundrað manns og þar af er ein rækjuverksmiðja á Hólmavík, Hólmadrangur, sem er fjölmennasti vinnustaðurinn á Ströndum. Lagt er til af nefndinni að þessar sértæku aðgerðir til stuðnings rækjuiðnaðar nái til alls landsins.

Nefndin fór þess á leit við Byggðastofnun að hún legði mat á breytingar sem hefðu orðið á rekstrarskilyðrum greinarinnar frá því að nefnd sem skipuð var af sjávarútvegsráðherra í árslok 2005 og fjallaði um stöðu og horfur í rækjuiðnaði á Íslandi á þeim tíma, skilaði af sér.

Það er mat Byggðastofnunar að staða greinarinnar hafi ekki batnað frá útkomu þeirrar skýrslu og að eina jákvæða breytingin lúti að gengi krónunnar, sem hafi veikst á tímabilinu.

Að mati Byggðastofnunar gæti ákvörðun um að frysta vaxtagreiðslur og afborganir af lánum rækjuverksmiðja hjá Byggðastofnun í fimm ár skipt þessi fyrirtæki miklu máli og væri auk þess almenn aðgerð gagnvart greininni í heild sinni og ekki væri verið að gefa fyrirtækjunum neitt. Byggðastofnun hefur almennar heimildir til slíkra hluta gagnvart sínum skuldurum, enda sé jafnræðis gætt. Aðstæður eru misjafnar innan fyrirtækjanna en þó eiga þau það sameiginlegt að eiginfjárstaða þeirra er mjög veik, þau þola ákaflega lítinn fjármagnskostnað og mega í raun ekkert skulda svo vitnað sé beint í einn stjórnanda í greininni. Eigið fé fyrirtækjanna hefur í raun brunnið upp.
 
Heildarskuldir 6 rækjuverksmiðja við Byggðastofnun nema nú 760 m.kr. Þar af nema skuldir fjögurra verksmiðja 730 m.kr. Með frystingu afborgana og vaxta af lánum í fimm ár má ætla að stofnunin yrði af vaxtatekjum upp á a.m.k. 250 m.kr., eða 50 m.kr. á ári. Áhrifin kæmu fyrst og fremst fram í sjóðstreymi stofnunarinnar. Gert er ráð fyrir þessum vaxtatekjum í rekstraráætlunum Byggðastofnunar og því yrði óhjákvæmilegt að stofnunin fengi framlag úr ríkissjóði til að mæta því tapi vaxtatekna sem af þessu myndi leiða.
Nefndin telur ástæðu til að taka til nánari skoðunar áhrif þess á starfsemi rækjuverksmiðja að frysta afborganir og vexti af lánum hjá Byggðastofnun. Til þess að slík aðgerð sé réttlætanleg þurfa að liggja fyrir frekari upplýsingar um núverandi afkomu í greininni áður en ákvörðun er tekin. Einnig þurfa að liggja fyrir betri upplýsingar um afkomuhorfur á næstu árum.