25/04/2024

Aðalfundur Leikfélags Hólmavíkur á sunnudag

640-tan4

Aðalfundur Leikfélags Hólmavíkur verður haldin í Félagsheimilinu á Hómavík sunnudaginn 19. október og hefst fjörið kl. 16:00. Á dagskrá eru að venju hefðbundin aðalfundarstörf, skýrsla stjórnar, ársreikningar og síðan fjörugar umræður um starfið framundan. Síðasta vetur hefur verið skemmtilegt hjá Leikfélagi Hólmavíkur. Leikritið Skilaboðaskjóðan var sett upp í vor í samstarfi félagsins og Grunnskólans á Hólmavík, undir stjórn Estherar Aspar Valdimarsdóttur og tókst sú uppsetning ljómandi vel. Einnig tók félagið virkan þátt í Hörmungardögum á Hólmavík, bæði í þriggja tíma langri Morðgátu sem sett var upp á Sauðfjársetri á Ströndum og 30 mínútna harmþrungnum spunaleik sem byggði á stórvirkinu Rómeó og Júlíu. Sá leikþáttur var afrakstur sérlega magnaðs námskeiðs hjá Guðbjörgu Ásu Jóns og Huldudóttur leikstjóra.

Þá má minnast kynningar á Leikfélaginu á súpufundi á Café Riis sem áðurnefnd Esther Ösp og Jón Jónsson sáu um og félagið hefur einnig staðið fyrir miklum umbótum á leikhúsinu sínu með því að setja upp varanlegar sviðsdrapperingar og festingar fyrir þær og ljósabúnað í loftinu á sviðinu í Félagsheimilinu síðasta vor.

Leikfélag Hólmavíkur fékk menningarverðlaun Strandabyggðar, Lóuna, síðasta sumar í tengslum við bæjarhátíðina Hamingjudaga. Stjórn Leikfélags Hólmavíkur skipa nú Einar Indriðason formaður, Salbjörg Engilbertsdóttir gjaldkeri og Ester Sigfúsdóttir ritari. Allir eru velkomnir á fundinn.

Minnt er á Facebook síðu Leikfélags Hólmavíkur og fólk hvatt til að smella „Líkar þetta“ á hana.