22/12/2024

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða framundan

Fréttatilkynning
Um næstu helgi verður aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða haldinn á Hótel Núpi í Dýrafirði. Dagskráin hefst á föstudagskvöld þann 16. apríl kl. 20:00 þar sem vinna við stefnumótun Vestfirskrar ferðaþjónustu verður kynnt. Vel yfir 100 manns tóku þátt í vinnunni í vetur. Á þeim fundi verður hægt að koma með athugasemdir og koma með tillögur til breytinga. Stefnumótunin verður síðan gefin út vikuna á eftir. Það ættu allir ferðaþjónustuaðilar að stefna að því að koma sínum hugðarefnum að í skýrslunni.

Aðalfundurinn sjálfur verður haldinn á laugardagsmorgun kl. 9:00. Aðalfundurinn verður hefðbundinn þar sem farið verður yfir venjuleg aðalfundarstörf. Stefnt er að því að honum verði lokið kl. 10:30.

Ráðstefnan Umhverfisvottaðir Vestfirði hefst kl. 11:00. Þar verða haldin fjölbreytt erindi. Rætt verður um stöðu umhverfismála á Íslandi og hvaða aðgerða sé hægt að grípa til, auk þess sem þessi mál verða sett í hnattrænt samhengi. Fjallað verður um almennt viðhorf til náttúrunnar og sagðar reynslusögur af vottun einstakra fyrirtækja, með áherslu á mikilvægi vottunar fyrir markaðsstarf og daglegan rekstur. Þar flytja erindi fræðimenn og sérfræðingar sem hafa látið umhverfismál til sín taka og munu miðla ráðstefnugestum af mikilli reynslu sinni á því sviði.

Lok ráðstefnunnar verða um kl. 17:00 og þá verður farið í skoðunarferð í Skrúð. Um kvöldið verður síðan skemmtun á hótelinu. Dagskrá ráðstefnunnar er að finna hér.

Það eru allir ferðaþjónustuaðilar og aðrir þeir sem hafa áhuga á vestfirsku samfélagi á Vestfjörðum hvattir til að taka þátt í þessari aðalfundarhelgi Ferðamálasamtakanna. Hægt er nálgast allar upplýsingar um dagskrána á heimasíðu Ferðamálasamtakanna.

Fundargestir eru jafnframt hvattir til að hafa samband við Hótel Núp og gera viðeigandi ráðstafanir með mat og gistingu ef á þarf að halda.