22/12/2024

Að velja milli kvenna – erfitt!?

Aðsend grein: Ólína Þorvarðardóttir
Sú óvenjulega staða er nú uppi í Norðvesturkjördæmi að tvær konur eru í baráttusætum tveggja framboðslista, báðar úr Skagafirði. Anna Kristín Gunnarsdóttir, sem verið hefur  þingmaður kjördæmisins á yfirstandandi kjörtímabili, skipar þriðja sæti á lista Samfylkingarinnar. Herdís Sæmundardóttir, stjórnarformaður Byggðastofnunar, skipar annað sæti á lista Framsóknarflokksins. Báðar eiga þær raunhæfan möguleika á að komast í þingsæti – en hvorug er þó örugg inn.

Það gerist ekki oft í íslenskum stjórnmálum að kjósendur þurfi að velja á  milli kvenna. Algengara er að valið standi milli karls og konu. Hefur af því skapast sú hvimleiða umræða sem margir þekkja, að konur komist til valda "bara vegna þess að þær séu konur". Nú er því ekki að heilsa, heldur þurfa kjósendur að vega og meta tvær mætar konur á pólitískum forsendum. Fyrir hvað standa þær?

Fulltrúi óbreytts ástands

Herdís Sæmundsdóttir er lítt þekkt á opinberum vettvangi, utan héraðs. Hún gegnir þó stjórnarformennsku sem fulltrúi Framsóknarflokksins í Byggðastofnun og hefur starfað sem bæjarfulltrúi. Að öðru leyti þekkja almennir kjósendur í kjördæmi lítið til hennar.

Eins og menn vita hefur Byggðastofnun veikst mjög í tíð iðnaðarráðherra Framsóknarflokksins og hefur átt erfitt með að gegna sínu mikilvæga rannsóknar- og stuðningshlutverki við byggðir landsins. Áform iðnaðarráðherra um að sameina hana Iðntæknistofnun og Nýsköpunarmiðstöð ollu stofnuninni erfiðleikum og óvissu, enda þótt ekki yrði af sameiningunni.

Samkvæmt skoðanakönnun sem fréttablaðið hefur nú kynnt vilja 90% framsóknarmanna áframhaldandi stjórnarsamstarf Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks. Þar með vitum við að atkvæði greitt framsóknarflokknum er atkvæði greitt ríkisstjórninni og óbreyttum stjórnarháttum. Hvað þýðir það? Það þýðir meðal annars áframhaldandi ójafnvægi í hagstjórnun landsins, misskiptingu lífskjara, vaxandi mun milli ríkra og fátækra, viðvarandi biðlista eftir velferðarþjónustu, óréttlátt skattkerfi, miðstýringu í landbúnaði og þverrandi virðingu fyrir grunngildum  jafnaðarhugsjónarinnar.

Fulltrúi umbóta og nýsköpunar

Anna Kristín Gunnarsdóttir er alþingisþingmaður á yfirstandandi kjörtímabili og kjósendur þekkja hana af verkum hennar. Hún hefur verið ötull málsvari landsbyggðarinnar, talað fyrir nýsköpun í atvinnu- og menntamálum kjördæmisins. Ekki síst hefur hún talað fyrir bættum samgöngum og umbótum í landbúnaði og látið sig varða málefni íslenskra bænda. Anna Kristín er sömuleiðis málsvari skynsamlegrar nýtingar náttúruauðlinda og aðhyllst hófsemi í þeim efnum. Hún hefur verið einörð og heiðarleg í sínum málflutningi.

Við sem höfum kynnt okkur stefnurskrár stjórnmálaflokkanna fyrir þessar kosningar vitum að atkvæði greitt Samfylkingunni er atkvæði greitt umbótavilja og breytingum: Stjórnarháttum sem miða að jafnvægi og réttlátri skiptingu lífskjara, auknum jöfnuði í samfélaginu, aukinni þjónustu í velferðarkerfinu og nýsköpun í atvinnulífi. Samfylkingin stefnir að sanngjörnum leikreglum í atvinnulífi þjóðarinnar, ekki síst landbúnaði og tekur stöðu með neytendum jafnt og  bændum. Samfylkingin hefur heitið því að útrýma biðlistum eftir velferðarþjónustu og gera allt sem í hennar valdi stendur til þess að afnema launamun kynjanna. Síðast en ekki síst byggir Samfylkingin á grundvallargildum jafnaðarmanna um heim allan.  

Kjósendur Norðvestur kjördæmi! Ef þið eigið erfitt með að velja á milli tveggja frambærilegra kvenna á kjördag, hugleiðið þá vel hvaða grundvallarsjónarmið þessar tvær konur standa fyrir. Það er hið raunverulega val sem þið standið frammi fyrir  í kjörklefanum.

Ólína Þorvarðardóttir.
Höfundur býr á Ísafirði og lætur sig varða málefni kjördæmisins.