Framundan er 7 daga námskeið í tengslum við Grunnskólann á Hólmavík í leik og sköpun með sérstaka áherslu á leikhústrúð, leikhússport og “devising” sköpunaraðferðina. Það er Hólmvíkingurinn Smári Gunnarsson, leiklistarnemi í Rose Bruford College, sem stendur fyrir námskeiðinu sem verður dagana 27. ágúst – 2. september í tvo tíma á dag, ef næg þátttaka fæst. Námskeiðið er fyrir aldurshópinn í 5.-10. bekk Grunnskólans og er þátttökugjald kr. 5.000.-.
Tækni leikhústrúðsins felst í að leyfa sér að staldra við í einlægni barndóms, þykjast og hafa ánægju af því. Það eina sem skiptir máli fyrir trúðinn er að vera fyndinn. Hann er innsti barnalegi kjarni hvers og eins.
Leikhússport er form á spunakeppni og einskonar skemmtun skemmtunar vegna. Þeir sem taka þátt setja sig í stellingar ólympíuandans og áhorfendur eru virkir þáttakendur. Farið verður yfir hina ýmsu stíla og grundvallaratriði góðs spuna.
“Devising” er árangursríkasta leiðin í sköpun leikins efnis til að fá útkomu sem enginn hefði getað spáð fyrir í upphafi ferlis. “Devising” er hrein sköpun laus frá hömlum sem hugurinn setur okkur og sendir okkur upp fyrir hæðir hugmyndaflugsins. Hinar ýmsu leiðir devising ferlisins verða skoðaðar.
Skráning er í tvo aldurshópa:
5.-7. bekk þar sem verður lögð aðaláhersla á trúðinn og leiki
8.-10. bekk þar sem verður farið dýpra í aðferðir devising og leikhússports.
Mælt er með að skrá sig sem fyrst því það eru takmörkuð pláss í hópunum og eins ef skráning er ekki næg þá fellur námskeiðið niður. Skráning með nafni og bekk sendist á netfangið: smari77@hotmail.com.
Smári Gunnarsson í aksjón