22/12/2024

Act Alone um helgina

Eina árlega leiklistarhátíðin á Íslandi Act alone er haldin nú um helgina, sjötta árið í röð. Act alone verður í Edinborgarhúsinu á Ísafirði og á Gíslastöðum í Haukadal í Dýrafirði. Að vanda er aðgangur að hátíðinni ókeypis og öllum opin enda er hér um hátíð að ræða og mikilvægt að sem flestir fái að njóta. Act alone er helguð einleikjum og er meðal fárra slíkra í Evrópu. Á dagskrá Act alone í ár eru alls fimm einleikir, eins manns tónleikar, sögusýning um einleiki á Íslandi og loks fyrirlestur um förumenn og leiklist á 19. öld á Íslandi.

Opnunarsýning Act alone 2009 er Umbreyting – Ljóð á hreyfingu eftir og með Bernd Ogrodnik og er hún sýnd hún kl. 20 í Edinborgarhúsinu á Ísafirði föstudagskvöldið 14. ágúst. Næstur stígur á stokk Róbert nokkur Snorrasson íslenskur leikari búsettur í Danmörku en hann bíður upp á eins manns kabarettinn Here I Stand. Sú sýning verður á veitingastaðnum Við Pollinn á Ísafirði og hefst kl. 22.

Á laugardeginum 15. ágúst verður boðið uppá þrjá vandaða einleiki. Leikurinn hefst kl. 14 í Edinborgarhúsinu með sýningu Grindvíska atvinnuleikhússins á 21. manns saknað með Víði Guðmundssyni. Þóra Karítas Árnadóttir stígur næsta á stokk með Ég heiti Rachael Corrie og hefst sú sýning kl. 18. Laugardeginum lýkur síðan með leikverkinu Ódó á gjaldbuxum sem einnig er í Edinborgarhúsinu og verður á dagskrá kl. 21.

Á sunnudeginum, 16. ágúst, falla vötn öll til Dýrafjarðar nánar tiltekið að Gíslastöðum í Haukadal. Þar verður boðið uppá Einstaka sýningu þar sem saga einleikjalistarinnar er sögð en sýningin var opnuð í sumar og er samstarfsverkefni Act alone og Leikminjasafn Íslands. Einnig verða til sýnis úrval myndverka úr smiðju vestfirskra einfara í myndlist. Jón Jónsson menningarfulltrúi Vestfjarða flytur því næst fyrirlestur um leiklist og förumenn á Íslandi á 19. öld. Hörður Torfason, leikari og söngvaskáld, bíður loks uppá eins manns konsert og lýkur þar með dagskrá sjöttu Act alone hátíðarinnar fyrir vestan.

Allar nánari upplýsingar um Act alone og dagskrána er að finna á heimasíðu Act alone www.actalone.net.