22/11/2024

Á Hornstrandir frá Norðurfirði

Svæðið norðan við Ófeigsfjörð er sífellt að verða fjölsóttara og um leið aðgengilegra. Nú er ekki lengur þörf á að vera sérstakur göngugarpur eða tjaldútilegumaður til að heimsækja þessar perlur Stranda og Hornstranda eins og Drangaskörð, Dranga, Reykjarfjörð nyrðri, Bolungavík og Hornbjarg. Maður getur rétt eins tekið bátinn báðar leiðir og boðið er upp á svefnpokapláss innanhúss bæði í Reykjarfirði nyrðri, Bolungarvík og Hornbjargsvita. Tjaldsvæðin eru líka þarna og sundlaugin í Reykjarfirði er alltaf vinsæll áningarstaður.

Reimar Vilmundarson verður með áætlunarferðir á Sædísi frá Norðurfirði í sumar: "Ég er að koma með nýjan 20 tonna bát sem mun heita Sædís eins og fyrri bátar og verð með áætlunarsiglingar þrisvar í viku frá Norðurfirði og að Reykjarfirði eða Hornbjargi. Svo er fjöldi ferða utan við áætlun, ég er búinn að bóka yfir 1000 manns fyrir sumarið og bókanir hafa tekið verulegan kipp núna um helgina sem ég þakka Perlusýningunni." Áætlun siglinganna er birt á vefsíðunni www.freydis.is og svo er líka hægt að slá á þráðinn til Reimars í síma 893-6926.

Ljósm. Jón Jónsson