22/12/2024

„Á heimaslóð með heimahrút, er helvísk skömm að falla“

Nú stendur undirbúningur fyrir Íslandsmeistaramót í hrútadómum sem hæst hjá Sauðfjársetri á Ströndum, en keppnin verður haldin laugardaginn 20. ágúst og hefst kl. 14:00. Kjötsúpa verður í pottinum frá hádegi og kaffihlaðborð verður í Sauðfjársetrinu í tilefni dagsins. Fullvíst má telja að fjölmargir mæti á svæðið til að keppa í hrútaþuklinu, en keppt er í tveimur flokkum. Annars vegar eru vanir hrútaþuklarar sem kunna að gefa hrútunum stig fyrir útlit, atferli og framgöngu, en í öðrum flokki keppa óvanir og hræddir þuklarar.

Á síðasta ári sigraði Elvar Stefánsson bóndi í Bolungarvík á mótinu og í tilefni af því brýnir Indriði bóndi Aðalsteinsson á Skjaldfönn Strandamenn til dáða með eftirfarandi kveðskap (og kannski er rétt að taka fram að bekri er annað heiti á hrút):

Strandamenn sig bera bratt
á bekra dóma þingum.
Síðast þó þeir fóru flatt,
fyrir Bolvíkingum.

Nú er ráð að rétta úr kút
og rýna í kosti og galla.
Á heimaslóð með heimahrút,
er helvísk skömm að falla.
Á laugardagskvöldið verður síðan stórdansleikur í félagsheimilinu á Hólmavík á vegum Sauðfjárseturs á Ströndum, en þar leikur hljómsveitin Upplyfting fyrir dansi.