22/11/2024

Kotbýli kuklarans seiðir að

Kotbýli kuklarans fer vel af stað en fjöldi gesta hefur heimsótt sýninguna á Klúku frá opnunarkvöldinu síðasta laugardagskvöld. Í dag var fjórði dagur sýningarinnar og 52 gestir komu í heimsókn. Afsláttarkerfi var tekið í gagnið í gær svo nú fá gestir Galdrasýningar á Ströndum góðan afslátt að annarri sýningunni með framvísum dagsettum aðgöngumiða af hinni. Þeir gilda í tvo daga eftir heimsókn á aðra sýninguna. Um það bil helmingur gesta Kotbýlis kuklarans í dag nýttu sér afsláttarkjörin samdægurs. Strandagaldursmenn eru ánægðir með viðtökurnar en Sigurður Atlason segir að þær komi í sjálfu sér lítið á óvart, því gríðarlegur áhugi sé fyrir öllu verkefninu. Í gestakönnun sem var lögð fyrir gesti Galdrasýningarinnar á Hólmavík síðasta sumar kom fram að 98% aðspurða hefðu áhuga á að heimsækja seinni áfanga sýningarinnar þegar þeir opna.

Sigurður segir það afar ánægjulegt, sérstaklega í ljósi þess að eitt meginmarkmið verkefnisins sé að það hafi sem mest margfeldisáhrif á sölu á annarri vöru og þjónustu í héraðinu. Þrátt fyrir það að takmörkuð kynning hafi átt sér stað í tengslum við opnun Kotbýlisins, sé ljóst að fjölmargir fylgist vel með verkum galdramanna á Ströndum og séu að setja farartækin sín í réttan gír og taka miðið á Galdrastrandir, enda séu þær orðnar fjölkunnugar.

Aðgangseyrir á Galdrasýningu á Ströndum er 500 krónur, en aðeins 400 krónur næstu tvo daga eftir heimsókn á hina sýninguna með framvísun á dagsettum aðgöngumiða. Frítt er fyrir börn 12 ára og yngri og meðlimir Tilberaklúbbsins fá að sjálfsögðu frítt inn hvenær sem er.