22/11/2024

Kotbýli kuklarans afreksverk

Einar K. Guðfinnsson alþingismaður og formaður Ferðamálaráðs opnaði Kotbýli kuklarans á Klúku í Bjarnarfirði formlega s.l. laugardagskvöld en Kotbýli kuklarans er annar áfangi Galdrasýningar á Ströndum. Hátt í tvö hundruð manns voru við opnunina og skemmtu sér vel. Einar segir á heimasíðu sinni www.ekg.is að verkefnið sé afreksverk og dæmi um menningartengda ferðaþjónustu eins og hún gerist best og metnaðarfyllst. Hér að neðan er pistill Einars Kristins ásamt nokkrum myndum frá opnun Kotbýli kuklarans.:

"Ég fékk það virðulega og skemmtilega hlutverk að opna formlega Kotbýli kuklarans að Laugarhóli í Bjarnarfirði á Ströndum sl. laugardagskvöld. Fjöldi fólks var viðstaddur, heimamenn og ferðamenn auk þeirra sem staðið hafa fyrir þessu mikla og merka framtaki. Kotbýlið er ákaflega athyglisverð viðbót við hið mikla framtak sem Galdrasýning á Ströndum er og sem hefur fyrir löngu vakið þjóðarathygli og raunar orðið þekkt út fyrir landsteinana.

 Það var Sigurður Atlason, einn forystumanna verkefnisins sem flutti ávarpsorð í upphafi og síðan tók til máls annar úr þeim hópi Magnús Rafnsson og gerði grein fyrir hinum sögulega bakgrunni verksins. Að því búnu fékk ég það hlutverk að rista galdrastaf á hurð Kotbýlisins, blása í skrá hennar og ljúka upp dyrum og opna þannig þessa stórmerku sýningu. Kotbýlið er mikið verk. Bærinn er hlaðinn úr torfi og grjóti og inni er búið að setja upp gríðarlega skemmtilega sjónræna sýningu.

Það er full ástæða til þess að heimsækja þessa skemmtilegu sýningu. Þarna getur að líta dæmi um menningartengda ferðaþjónustu eins og hún gerist best og metnaðarfyllst. Þeir sem fyrir verkefninu hafa staðið eiga þakkir skildar. Þeim hefur tekist að sameina með ögrandi en nærfærum hætti í senn, vandaða umfjöllun um viðkvæm mál, færa þau nær nútímanum og auka skilning okkar á högum þess fólks, sem leitaði í kukl og yfirskilvitlega hluti, til þess að sigrast á því mikla amstri sem líf hversdagsmanna og kotunga var fyrr meir á Íslandi."