Daníel Ingimundarson, torfærukappi og þúsundþjalasmiður á Hólmavík, mun taka þátt í heimsmeistaramóti í torfærukeppni í júlí í sumar á torfærubílnum sínum Green Thunder. Sjö aðrir keppendur verða þar fyrir Íslands hönd að etja kappi, en keppnin fer fram í Gautaborg í Svíþjóð helgina- 9. 10. júlí. „Jú, ég er einn af þeim", sagði Daníel í stuttu spjalli við tíðindamann strandir.saudfjarsetur.is „en ég hef verið að dunda mér við það í vetur að gera Grænu þrumuna klára í torfærur sumarsins, bíllinn hefur verið mikið endurnýjaður í vetur og er kominn með nýja og sprækari vél."
„Úrval-Útsýn hefur skipulagt ferð fyrir þá sem hafa áhuga á að fylgjast með mótinu og ennþá eru einhver sæti laus", segir Daníel, og hann á von á því að mikill fjöldi manna fylgist með keppninni. „Þessi grein akstursíþrótta er rammíslensk", bætir hann við „og nýtur sívaxandi vinsælda í heiminum. Við erum nú þekktir fyrir það að ráðast á ókleyfan hamarinn", segir Daníel og stingur hausnum glottandi með smurolíu á nefbroddinum undan vélarhlif Grænu þrumunnar. Danni laumaði því að tíðindamanni strandir.saudfjarsetur.is að þeir sem hefðu áhuga á góðri auglýsingu, mættu gjarnan auglýsa á bílnum hjá honum í sumar, og að netfangið hans er thunder@snerpa.is.
Heimasíðu HM í torfæruakstri 2005 er að finna á þessari slóð og heimasíðu Daníels, Græna þruman (Green Thunder) er að finna á þessari slóð.