Ingibjörg Sólrún Gísladóttir heimsótti Strandamenn á ferð sinni um Vestfirði vegna yfirvofandi formannskjörs Samfylkingarinnar. Boðið var til kaffispjalls á Hólmavík í dag, þar sem stuðningsmönnum Ingibjargar og öðrum áhugasömum gafst tækifæri til að hitta Ingibjörgu og kosningastjóra hennar Ólafíu B. Rafnsdóttur. Einnig var von á Önnu Kristínu Gunnarsdóttur þingmanni, en hún varð því miður að boða forföll þar sem hún tók þátt í útvarpsþætti um málefni kjördæmisins og var hann sendur út í dag. Frestur til þátttöku í formannskjörinu er til 15. apríl og hægt er að skrá sig í Samfylkinguna í Strandasýslu hjá Attý á Bakka.