Bragi Jónsson frá Hoftúnum er mörgum eldri Strandamönnum vel kunnur, en hann orti vísur og kvæði undir nafninu Refur bóndi á árum áður. Nokkrar bækur hafa komið út með kveðskap hans og í þeim eru fjölmargar vísur sem tengjast Ströndum og Strandamönnum. Í tilefni jólanna birtum við hér sveitarrímu úr Kollafirði sem ort var árið 1967 og kom út í bókinni Tófugrös árið 1969. Þar eru nefndir bændur á öllum bæjum í sveitinni. Sumir þeirra eru enn búandi í Kollafirði, en á öðrum bæjum þar sem enn er búskapur hafa synir þeirra sem nefndir eru tekið við.
Ríma
(um bændur í Fellshreppi í Strandasýslu,
kveðin 27. okt. 1967)Fells í hreppi hafa lengi,
höldar margir búið vel.
Þekki ég alla þessa drengi,
þeirra heiti upp nú tel.Út við sjóinn sumir búa,
sízt þeir óttast þrautaél,
og á moldar mátt þeir trúa
meira en bæði kofu’ og sel.Allt í kringum Kollafjörðinn,
kjarnaland er talið æ,
því mun feit og falleg hjörðin
finnast þar á hverjum bæ.Þó á vetrum vonsku-hríðar
vilji tíðum geisa þar.
Sól og ylur sumartíðar
seggi gleður alls staðar.– – –
Broddadals á ánni eru
orkuslyngir bændur þrír.
Rausnarmenn í raun og veru,
– rekkur hver að sínu býr.Brynjólfur er borinn Jóni,
bróðir Halldórs, mörgum kær,
Gunnar úti’ á Ísafróni,
allra lof og hrósið fær.Broddanesi bændur fjórir
búa í og fjölga hjörð,
eðlisgreindir, orkustórir,
yrkja þessa góðu jörð.Annarra haginn ef að þrengir
allra vilja gera bón.
Eru þekktir afbragðsdrengir,
Einar, Stefán, Guðbjörn, Jón.Eykst þeim nú með árum gróði,
auðnudís þeim veitir lið.
Þeirra jafnan þyngir sjóði
þegar nógan rekur við.Stóra-Fjarðarhornið hirðir
hreppstjórinn að nafni Jón.
Sveitarmengi sífellt virðir
sveitarinnar dygga þjón.Jón sér reisti fjárhús fögur,
frægð, sem hljóta í lengd og bráð.
Af þeim ganga ótal sögur
út um gjörvallt Strandaláð.Þórður yrkir Undralandið,
orðin nú sú jörð er góð.
Hans er líf ei beiskjublandið,
býr hann þar með hringaslóð.Aðra jörð hann yrkir líka,
er það Þrúðardalurinn.
Kjarnalandið kosta-ríka
kemur þrótti í bústofninn.Sigurður á Felli frægur
fyrir góðan búskap er.
Greindur, prúður, gætinn, hægur,
gæfuleiðir jafnan fer.Miðhúsanna, mætur gætir
merkisbóndinn Finnbogi.
Efnahag sinn alltaf bætir
ásamt honum Guðfinni.Stýrir traustur Steinadalnum
stilltur jafnan Gústi, Jón.
Þar í fögrum fjallasalnum,
fær hann heill en ekki tjón.Líti ég að Ljúfustöðum,
löngum þar margt gott ég sé.
Þórður beitir höndum hröðum,
hagur vel á járn og tré.Þegar eitthvað þarf að laga,
Þórðar til menn leita skjótt.
Bætir úr því höndin haga,
hjálpar bæði vel og fljótt.Flestir þeir, sem þurfa’ að ríða,
Þórðar leita oft á fund.
Söðla gjörir seggur smíða,
sitt í jörð ei grefur pund.Þekkt er víða Þórðar snilli,
þarf ei um að hafa orð.
Enda fær hann allra hylli
endilanga Fróns um storð.Fjarðarhorni litla lifað,
lengi Þórður hefur í.
Símans gætt og skýrslur skrifað,
skörulegur æ og sí.Jónatan fær háan hróður,
Hlíðarland hann yrkir nú.
Á hans ráði einn er ljóður
að hann skuli vanta frú.– – –
Taldir eru allir bændur,
er í hreppnum búa nú.
Munu flestir vera frændur
fullkomin er vissa sú.Íslands bænda eflist gengi,
allra bæði fjær og nær.
Orni þeim og lýsi lengi
lukku-sunna hlý og skær.Úr mér dregur óðarmáttinn
enda ég því braginn skjótt.
Fýsir mig að fara í háttinn,
fyrðum býð því góða nótt.Nafn mitt hatar hópur ýta,
hef ég aldrei von um frið.
Kænn í skapi, kann að bíta,
kannast flestir heitið við.