Aðsend grein: Ingimundur Jóhannsson
Þessa dagana hefur verið hálfgerð ótíð með snjókomu og skafrenningi. Moksturstæki hafa verið að störfum, bæði á götum Hólmavíkur og á þjóðvegunum í kringum okkur ef fært hefur verið á heiðar og hálsa sem ekki hefur alltaf verið. Nú um síðustu helgi gerði talsverða snjókomu og skafrenning, þó spár hafi ekki verið neitt mjög slæmar fyrir hana dagana á undan. Í svona tíð er erfiðara um fæðuöflun hjá snjótittlingunum, sem hópast jafnan á húsþök, bíða eftir æti og vona að bölv… helv… kettirnir séu ekki nálægir.
Þannig var það líka nú um helgina og að sjálfsögðu var húsfreyjan á Bröttugötu 2 búin að endurnýja fuglafóðurs birgðirnar. Einnig hefur pabbi gamli, Jóhann Guðmundsson á Bröttugötu 1, verið duglegur að gefa fuglunum þó talsvert sé um að húsdýr séu að þvælast í garðinum hjá honum.
Fuglum var gefið á laugardaginn og svo líka á sunnudaginn. Eins og sést á myndum voru þeir ekki smeykir við hann Lárus litla sem hafði mjög gaman af að fylgjast með þeim nokkra sentimetra frá, með rúðuna á milli. Einnig voru þeir til í að borða úr vinstri hendi Sólrúnar sem tók mynd með þeirri hægri.
Á Bröttugötu 2 er kamína í ganginum sem stundum er kveikt upp í. Á laugardaginn kveikti Sólrún upp í einhverju bréfadóti (ekki þó gíróseðlum) og á sunnudaginn ætlaði hún að henda einhverju í kamínuna. En þegar Sólrún opnaði kamínuna flaug fugl á móti henni og brá viðstöddum er fuglinn flaug skelfingu lostinn uppí loftið og sáust svört striká nokkrum stöðum, enda fuglinn orðinn alldökkur eins og sést á myndunum þar sem Unnur heldur á honum.
Einhverra hluta vegna hefur fuglinn farið niður um strompinn, sem er ekki nema 23-25 cm breiður, og fundið rörið úr kamínunni og sem betur fer var spjaldið í reykrörinu opið.Þaðan hefur hann hoppað ofaná eldhlíf sem er efst í kamínunni og síðan niður í hana þar sem hann hefur beðið eftir því að eitthvað gerðist því ekkert heyrðist sem þótt gæti grunsamlegt.
Nú er kamínan opnuð VARLEGA því það væri betra að ná fuglinum inni í henni, en maður hefði haldið að fremur ólíklegt væri að snjótittlingarnir færu svona niður í stromp. En ekki veit ég mikið um atferli smáfugla en held að þessi hafi verið heppinn að lifa þetta af.
En við skulum muna eftir smáfuglunum og reyna að gefa þeim þegar hart er í ári hjá þeim, því það er bæði gaman að hjálpa þeim og gaman að fylgjast með þegar þeir koma til að fá í gogginn.
Kveðja af Bröttugötunni,
Ingimundur Jóhannsson
Unnur með kamínufuglinn
Fuglarnir við gluggann
Lárus fylgist með fuglunum
Smáfuglarnir borða úr lófa Sólrúnar