22/11/2024

Ljósi varpað á einstakt mannlíf

Aðsend grein: Einar Kristinn Guðfinnsson.  Það er ástæða til þess að vekja athygli á stórmerkri bók sem kom nú út fyrir jólin og á erindi til allra þeirra sem áhugasamir eru um byggðasögu og vilja afla sér fróðleiks um merka sögu sem hvergi annars staðar getur að líta. Hér er átt við bókina Undir Snjáföllum. Þættir um búsetu og mannlíf á Snæfjallaströnd, eftir Engilbert Ingvarsson fyrrum bónda og oddvita á Tyrðilmýri. Fyrir utan það að vera einstaklega læsileg og vel rituð, er bókin ómetanleg heimild um gengna tíð og sem ella má ætla að hefði glatast. Það er því full ástæða til þess að þakka bæði höfundi og öðrum þeim sem höfðu forgöngu um ritun og útgáfu verksins. Þeir sem til þekkja vita að enginn er betur til þess fallin að skrá á bók það sem hér getur að líta. Engilbert Ingvarsson er borinn og barnfæddur á Snæfjallaströnd, hefur ætíð fylgst þar með málum og var virkur í starfi héraðsins. Bæði sem starfandi bóndi á Tyrðilmýri og einkar áhugasamur og mikilvirkur félagsmálamaður og forystumaður í þágu sinnar sveitar. Í bókinni er sögð afskaplega fróðleg saga. Þar er varpað ljósi á lífsbaráttu sem er okkur ekki ljós sem ekki lifðu þá tíma sem bókin lýsir. Margt vekur hér athygli. Hið augljósa er frásögnin sem gengur sem rauður þráður í gegn um bókina af lífsbaráttu og framfarahug sem lýsir sér. Þrátt fyrir erfið náttúrufarsleg skilyrði og örðugar samgöngur ríkti mikill framfarahugur á meðal fólksins á Ströndinni. Það er því lýsandi að lesa um hvernig menn lögðu saman og unnu að því að byggja upp aðstæður til þess að svara kalli tímans. Ítarleg umfjöllun um bæina á Snæfjallaströnd er einstæð heimild. Frásagnir af barnaskólanum í Lyngholti, æskuheimili Engilberts, sýna okkur enn það sem við svo vel vitum; skóli er ekki hús, svo vitnað sé til fleygra orða Ragnars H. Ragnars. Skólinn er mikið meira og byggir á áhuga samfélagsins, kennaranum og áhuga nemendanna. Enn má nefna sérlega eftirminnilega frásögn höfundar af því þegar menn tóku saman höndum til þess að koma upp sundlaug, í samræmi við þarfir þess samfélags sem á Snæfjallaströndinni var. Við lesum líka um það þegar unga fólkið lagði á sig dagleiðir til þess að hittast á mannamótum og skemmtunum. Nokkuð sem óhugsandi er að ungt fólk ( eða eldra) legði á sig í dag. Þá er að nefna kafla sem nefndur er  í bókinni Úr fornu fari til nútíðar og greinir frá vegalagningu, vélvæðingu og öðru því sem menn tókust á við til þess að efla búsetu á Snæfjallaströndinni. Loks er að nefna stórskemmtilegar og fróðlega kafla af einstökum mönnum, sem bókin geymir. Út með Snæfjallaströndinni var byggðin meiri en margan nútímamanninn grunar. Menn voru í rauninni að sækjast eftir aðstæðum sem í dag þykja ekki eftirsóknarverðar. Jarðnæði var lítið, en möguleikar til sjósóknar tryggðu afkomuna. Þó aðstæður frá náttúrufarslegu sjónarmiði væru erfiðar varð til byggð á þessu svæði, þannig að fyrir 150 árum voru íbúar Snæfjallahrepps litlu færri en í Ísafjarðarkaupstað. Segir þetta ekki litla sögu um þróun þéttbýlismyndunar í landinu. Víða er freistandi að grípa niður í bókina til endurfrásagnar. Hún er vel skrifuð og sagnir sem hún geymir lýsandi og fjörlegar. Hér verður reynt að standast freistingar, en lítil, skemmtileg og sláandi frásögn af síðasta prestinum á Snæfjöllum, séra Hjalta Þorlákssyni sem bjó á Snæfjöllum á árunum 1844 til 1861 og var auk umdeilds prestsskaps,  annálaður og aflasæll sjósóknari. Frásögnin er úr endurminningarbók Guðmundar G. Hagalín, Stóð ég úti í tunglsljósi og er höfð eftir Betúel J. Friðrikssyni frá Berjadalsá. Frásögnin er svona: “Aldraður maður, Betúel á Gullhúsaám á Snæfjallastönd sagði mér að eitt sinn hefði séra Hjalti komið úr mikilli aflahrotu úr Bolungarvík til að syngja messu á Stað ( í Grunnavík) og beið þá allmargt sóknarbúa og útróðrarmanna. Séra Hjalti hafði verið á sjónum um nóttina og aflað vel og varð hann svo seint fyrir að hann fór aðeins úr sjóbrókinni og gekk síðan til kirkju þess albúinn að fara í messuklæðin. Meðhjálparinn fann að þessu við hann, sagði að seltuþef og slorlykt legði um alla kirkjuna. Séra Hjalti varð úfinn á svip og mælti: “Ekki segir Matteus guðspjallamaður frá því að sjálfur Kristur hafi sagt þeim bræðrum Andrési og Símoni Pétri að hafa fataskipti þegar hann kallaði þá frá fiskidrætti og bað þá að fylgja sér — og þeir hlýddu kalli hans án tafar”. Þetta dugði til þess að séra Hjalti var færður í skrúðann án frekari umyrða.” Þessi frásögn er ein margra í bók Engilberts, sem bæðir glæðir textann frekara lífi og er til þess fallinn að varpa ljósi á einstakt mannlíf. Hún holl lesning okkur nútímafólki sem ekki þekktum þessa tíma, nema af óljósri afspurn. Bókin  er verðugur bautasteinn þess mannlífs sem á Snæfjallaströndinni var lifað og nægjanlegt þakklæti verður ekki fært í orð, til Engilberts Ingvarssonar fyrir að varpa ljósi á þessa einstæðu sögu, sem verðskuldar að vera minnst, með svo ágætri bók. Einar Kristinn Guðfinnsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra