Aðsend grein: Magnús Stefánsson
Íslenska þjóðin hefur góða reynslu af störfum Framsóknarflokksins síðustu 90 ár. Við höfum tekið þátt í landstjórninni á mestu breytingartímum og framfaraskeiðum þjóðarinnar. Markmið okkar hafa ávallt verið raunhæf og svo er einnig nú, fyrir alþingiskosningarnar 12. maí nk.
Við byggjum á reynslu okkar og þekkingu á öllum málaflokkum. Við tökumst á við þau verkefni sem okkur eru falin af fullri alvöru og ábyrgð og óttumst aldrei að takast á við erfið mál og umdeild. Við höfum náð ótrúlegum árangri á síðustu árum á mörgum sviðum og við viljum halda áfram að ná árangri.
Stefnuskrá okkar er ekki loforðalisti, þar sem lofað er auknum ríkisútgjöldum í milljarðavís án þess að hafa hugmyndir um hvernig á að standa undir þeim útgjöldum. Við vitum að ríkissjóður þarf að hafa tekjur til að standa undir útgjöldum, þess vegna er grundvallar atriði að hlúa vel að atvinnulífinu þannig að atvinnufyrirtækin blómstri, atvinnutækifærum fjölgi og verðmætasköpun aukist. Við viljum áfram vinna að nýsköpun í atvinnulífinu um allt land. Við viljum áfram efla íslenskan landbúnað og treysta rekstrarumhverfi hans. Við viljum halda áfram að efla menntun, rannsóknir og vísindastarf á breiðum grundvelli um land allt, svo eitthvað sé nefnt.
Framsóknarflokkurinn lætur ekki nægja að tala og tala um jafnréttismál. Við sýnum í verki að við viljum ná fram fullu jafnrétti kynjanna. Í tíð framsóknarmanna í Félagsmálaráðuneytinu hefur verið komið á fæðingar-og foreldraorlofi, sem vekur mikla athygli víða um heim. Til landsins koma nú sendinefndir frá Evrópulöndum sem kynna sér aðferðir okkar. Nefna má að við vinnum markvisst gegn kynbundnum launamun, m.a. með því að koma á vottun jafnra launa í fyrirtækjum og stofnunum. Við vinnum að því að aðilar vinnumarkaðarins taki höndum saman um aðgerðir gegn launamun kynjanna í tengslum við kjarasamninga.
Við framsóknarfólk viljum að sem mest jafnræði sé milli kynjanna á Alþingi. Ég hvet kjósendur til þess að veita Framsóknarflokknum brautargengi í komandi alþingiskosningum og tryggja þannig kjör Herdísar Sæmundardóttur. Staðreyndin er sú að Herdís Sæmundardóttir er í baráttusætinu, hún er verðugur fulltrúi kjördæmisins á Alþingi og þar mun reynsla hennar og þekking á ýmsum málefnum koma sér vel og nýtast landi og þjóð.
Magnús Stefánsson, félagsmálaráðherra.