22/11/2024

Málefnalegur fundur með bændum

Aðsend grein: Anna Kristín Gunnarsdóttir
Það var gott að fá tækifæri til að ræða við bændur á málefnalegan hátt, augliti til auglitis á fjölmennum fundi á Staðarflöt s.l. mánudagskvöld.  Þannig næst gagnkvæmur skilningur og samvinna, sem er bæði bændum og Samfylkingunni nauðsynlegur.  Samfylkingin mun örugglega sitja við stjórnvölinn í landinni á komandi tíð og þá er betra að við höfum rætt saman, í einlægni og myndað traust okkar á milli.

Við frambjóðendur Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi og víðar um land, höfum átt gagnlegar samræður við bændur, heimsótt fjölmörg býli að undanförnu og erum mun fróðari eftir og erum þakklát þeim sem hafa tekið á móti okkur og átt við okkur tal.

Stuðningur nauðsynlegur

Samfylkingin styður beinan stuðning við landbúnað og veit að hann er nauðsynlegur en gerir skýra kröfu um árangur bæði til handa framleiðendum og neytendum. Stuðningurinn verður að skila sér í góðri afkomu bænda og sanngjörnu verði til neytenda, framþróun og nýliðun í greininni og vera árangursríkur stuðningur við atvinnulíf á landsbyggðinni.

Umræðan um landbúnað einkennist oftast af tveim greinum, sauðfjárrækt og mjólkurframleiðslu enda þær tvær sem njóta mest opinbers stuðnings. Aðrar greinar eru þó afar mikilsverðar fyrir byggðir landsins og þær þarf að efla og bæta aðstæður til fjölbreytilegs atvinnulífs í strjálbýli landsins. Það gerist meðal annars með samgöngubótun og jafnrétti í aðgangi að háhraðanetstengingum – sem eru jú mjög mikilvægt atriði einmitt fyrir hinar hefðbundnu búgreinar ekki síður en annan nútíma atvinnurekstur.  

Sjálfsagðar leiðréttingar

Við vitum að afkoma sauðfjárbænda er ekki nógu góð og skuldsetning mjólkurframleiðenda of mikil og fer vaxandi.  Þessum tveim greinum, sem og landbúnaði í heild, er hægt að létta róðurinn nú þegar með því að:
· lækka raforkuverð  til landbúnaðar en hann hækkaði jafnvel um hundruði prósenta og víða um marga prósentutugi, í kjölfar breytinga ríkisstjórnarinnar á sölufyrirkomulagi raforku. 
· innleiða jöfnun flutningskostnaðar um landið en ríkisstjórnin fól Byggðastofnun að gera tillögur þar að lútandi og var þeim  skilað  til ráðherra í ársbyrjun 2004. Þær hafa legið í felum niðri í skúffu iðnaðarráðherra síðan þar sem ekki er raunverulegur  vilji innan Sjálfstæðisflokks og Framsóknar til að jafna flutningskostnað
· einnig með niðurfellingu stimpilgjalda, eins og Búnaðarþing hefur ályktað um en þingmaður Samfylkingarinnar Margrét Frímannsdóttir hefur ítrekað lagt fram  tillögu um einmitt þetta mál á Alþingi
· lækkun eða niðurfellingu aðflutningsgjalda á aðföngum til bænda.

Breytingar munu verða

Margt er gott gert í sveitum landsins og sumt alveg frábært en það er alveg ljóst að breytingar þurfa að verða í landbúnaði, það vitum við öll.

Við vitum að kvótakerfið mun ekki geta staðist til frambúðar, við vitum að nýliðun er mjög erfið í dag, tveir ungir  einstaklingar á tveim fundum í sitt hvoru landshorninu spurðu mig nýlega, "hvernig á ég að geta keypt mér jörð og bústofn og kvóta?"  Það stendur engin framleiðsla undir því. Við vitum að nýsköpun í dreifbýli er of lítil.  Við vitum að sótt verður að hefðbundnum landbúnaði erlendis frá, við verðum að vera sterk og geta aðlagað okkur breytingum.

Ekki finna upp hjólið aftur

Við vitum líka að við getum sótt okkur fyrirmyndir, og erum að gera það t.d. í síðasta sauðfjársamningi þar sem t.d. ákvæðin um nýsköpunarstyrkir og búskaparlok er sótt til Evrópusambandsins. Og að sjálfsögðu á íslenskar matvara að vera sérmerkt í verslunum og veitingahúsum. Það er fáránlegt að svo er ekki og að maður veit ekkert um hvort kjötið á diskinum er frá Argentínu eða Íslandi.

Að síðustu vil ég minna bændur á að Sjálfstæðisflokkur og Framsókn hafa haldið utan um aðför að bændum í þjóðlendumálum en þingmenn Samfylkingarinnar hafa ítrekað staðið fyrir umræðum á Alþingi gegn þeirri ósvinnu. Bændur eiga samstarfsmenn í okkur.

Samfylkingin vill eiga samráð við bændur og hlakkar til samstarfsins.

Anna Kristín Gunnarsdóttir
alþingismaður Samfylkingarinnar í Norðvesturkjördæmi