Aðsend grein: Valdimar Sigurjónsson
Umræður um málefni bænda hafa ætíð verið fyrirferðamiklar í íslensku samfélagi. Á síðustu misserum hafa þær einkennst af mikilli hörku og ákveðinni niðurlægingu í garð bænda, þá sérstaklega í kjölfar umræðu um hátt matvælaverð og ekki síst þegar nýr sauðfjársamningur var kynntur á dögunum. Umræðurnar hafa oft verið á þá leið að bændum og neytendum er stillt upp sem andstæðum pólum þar sem bændur eru úthrópaðir á torgum og á pólitískum vettvangi af fólki sem vill afnema verndartolla og hætta styrkjum til þess að glæða vonir neytenda um lægra vöruverð.
Eru bændur neytendur?
Ekki þarf að fara löngum orðum að skilgreina neytendamarkað til þess að átta sig á þeirri þröngsýni og þeim villigötum sem þessi umræða er á. Að stilla bændum og neytendum upp sem andstæðum pólum er eingöngu gert í pólitískum tilgangi sem verður að teljast ósmekklegt athæfi sem gæti kostað þjóð okkar mikinn skaða til lengri tíma. Til þess að framleiða landbúnaðarafurðir eru bændur neytendur á mörgum mörkuðum og má þar nefna eldsneytismarkað, tryggingamarkað, fjármagnsmarkað, byggingavörumarkað, flutningsmarkað að ógleymdum matvælamarkaði.
Leið til að lækka verð á landbúnaðarvörum
Þeir markaðir sem taldir voru upp hér að framan hafa margir verið áþreifanlega í umræðunni fyrir samráð, fákeppni og óvirka samkeppni. Það ástand skilar sér beint inn í verð á landbúnaðarvörum vegna kostnaðaruppbyggingar þeirra vara. Neytendur á þessum mörkuðum geta með neysluhegðun sinni haft mikil áhrif á hvernig samkeppni og verðlag þróast. Stærstu byggðarkjarnarnir, t.d. suðvesturhornið getur valið úr fyrirtækjum með sömu eða svipaða vöru og þjónustu og verslað þar sem hagstæðast er hverju sinni. Höfuðborgarsvæðið er því verðleiðandi fyrir landið í heild og er landsbyggðin töluvert bundin af því hvernig samkeppni þróast á því svæði. Það er því augljós leið fyrir lækkunar á landbúnaðarvörum að bændur geti í kjölfar virks markaðar notið lægra vöru- og þjónustu verðs en áður.
Niðurstaða
Með ógætinni umræðu hefur bændum og neytendum verið stillt upp sem andstæðingum en ekki samherjum. Bændur eru neytendur þar sem framleiðsla þeirra byggist upp á aðföngum af mismunandi neytendamörkuðum. Neytendur á höfuðborgarsvæðinu vega þyngst til að koma á virkri samkeppni þar sem val þeirra er fjölbreyttara en á örðum landssvæðum. Aukin samkeppni og heiðarlegir viðskiptahættir leiða til lægra vöruverðs sem skilar sér í lækkun rekstrarkostnaðar hjá bændum og eykur möguleika þeirra á að lækka afurðaverð til neytenda.
Lokaorð
Sú pólitíska umræða sem samfylkingin hefur leitt og byggist á því að afnema verndartolla og að hætta að styrkja innlendan landbúnað er gerð til þess að reka fleyg á milli höfuðborgarsvæðisins og landsbyggðarinnar. Ekki ætla ég að fara út í ítarlega framtíðarspá íslensks landbúnaðar ef þau stjórnmálaöfl sem þetta boða ná framgangi, en tel þó að varleg áætlum kallist útrýming landbúnaðar á Íslandi, það er einungis hægt að rífast um hversu langan tíma það tekur. Í mínum huga telst það ósmekkleg aðför að heilli stétt í landinu og vinnur algerlega gegn því grundvallaratriði íslensks samfélags að hér búi, í sátt og samlyndi, ein þjóð í einu landi.
Valdimar Sigurjónsson
Höfundur skipar 3. sæti á lista Framsóknarflokksins í NV-kjördæmi.