Aðsend grein: Kristinn H. Gunnarsson.
Mikil umræða hefur verið um matvælaverð hér á landi. Sagt er að verðið sé hátt og mun hærra en meðalverð 15 ESB landa og talið að vandinn liggi í takmörkunum á innflutningi á mjólk – og kjötvöru. Með þessari framsetningu er neytendum eða almenningi stefnt gegn bændum.
En ekki er allt sem sýnist í þessu máli fremur en í mörgum öðrum. Lítum á 3 staðreyndir sem tala öðru máli.
1. Kaupmáttur tekna gegnvart matvælum er meiri en í ýmsum suðrænum Evrópusambandsríkjum. Það þýðir að Íslendingur ver minna af tekjum sínum hlutfallslega til matvælakaupa en í þessum löndum. Aðeins um 14% útgjalda meðalheimilins hérlendis eru til matvælakaupa en tæplega 20% í Portúgal og um 16% á Spáni. Auk þess eru hlutfallið hærra í Grikklandi og svipað á Ítalíu og Frakklandi. Í löndum norður Evrópu, sem eru með háþróaðan landbúnað í stórum einingum eru matvælaútgjöldin um 1-2% lægri en hér á landi, það er allur munurinn.
2. Innlendi hluti matvælakaupa Íslendingsins er aðeins ríflega 5% af útgjöldum heimilisins. Sá hluti hefur lækkað á undanförnum 8 árum úr tæplega 7%. Þetta gerist vegna þess að innlend framleiðsla lækkar í verði. Hagræðing í atvinnugreininni hefur skilað sér til neytenda.
3. Verðlag búvöru sem frjáls innflutningur er á er í mörgum tilvikum mun hærra yfir meðalverði 15 ESB landanna en matvælaverðið í heild.. Frjálsa kerfið skilar ekki alltaf lægra verði, það skulu menn athuga. Þannig er verð á grænmeti um 67% yfir meðalverði 15 ESB landa, brauð og kornvörur einnig, gosdrykkir safar og vatn um 64% hærra svo nokkur dæmi séu nefnd. Meira að segja fiskurinn er um 21% dýrari en að meðaltali í ESB löndunum 15 og skyldi þá mega ætla að annað væri upp á teningnum.
Svo má nefna að óvíða er meira frjálsræði í innflutningi á búvöru en einmitt hér á landi. Um helmingur af orkugildinu í búvörunni er innflutt. Vörur eins og kaffi, sykur, kakó og tóbak eru fluttar inn frá svonefndum 3. heims löndum hindrunarlaust. Það gera ekki margar þjóðir betur í þeim efnum.
Þessar þrjár staðreyndir er vert að hafa í huga í umræðunni um matvælaverð og innflutning á búvöru.
Kristinn H. Gunnarsson, þingmaður, gefur kost á sér í 1. sæti á lista Framsóknarflokksins
www.kristinn.is