Aðsend grein: Jón Bjarnason, þingmaður VG
Sturla Böðvarsson samgönguráðherra og fyrsti þingmaður Norðvesturkjördæmis kom fyrir Samgöngunefnd Alþingis í morgun þriðjudag, til að svara fyrir ákvörðun ríkisstjórnarinnar um niðurskurð í vegaframkvæmdum á Vestfjörðum og víðar. Ráðherra upplýsti að ekki væri uppi neinar tímasetningar varðandi það að breyta þeirri ákvörðun. Niðurskurðurinn og frestunin stæði óbreytt. Það er rétt að hér ríkir verðbólga og stýrivextir Seðlabankans eru himinháir sem í raun staðfesta efnahagsóstjórnina. En er hún sök Vestfirðinga? Geta þessar litlu vegaframkvæmdir sem nú eru skornar af Vestfirðingum ráðið einhverju þar um? Fráleitt!
Álverin hafa algeran forgang
Ráðherrann var spurður hvort ekki væri þá rétt að draga úr eða fresta einhverjum af stóriðjuframkvæmdunum á Suðvesturhorninu og fyrir austan og undirbúningi nýrra álvera svo sem á Húsavík og í Helguvík. Það eru þessar erlendu stóriðjuframkvæmdir sem eru að ríða öllu efnahagskerfinu á slig og ríkisstjórnin liggur marflöt fyrir. En þar er allt á fullri ferð. Gat ráðherra litlu um það svarað.
Manni hlýtur að vera spurn: Hvers vegna eiga Vestfirðingar og íbúar Norðausturlands stöðugt að bera herkostnaðinn af stóriðjustefnunni, nú með niðurskurði á vegaframkvæmdum?
Má minna á að frestun framkvæmda gildir einnig um jarðgöngin um Óshlíð.
Vestfirðingar skulu áfram blæða
Fulltrúar Samfylkingar, Frjálslyndaflokks og Vinstri grænna lögðu fram svohljóðandi tillögu á fundi Samgöngunefndarinnar í morgun:
„Samgöngunefnd samþykkir að krefjast þess að ríkisstjórnin dragi nú þegar til baka þá ákvörðun sína frá 27. júní s.l. að skera niður vegaframkvæmdir á tilgreindum vegaköflum úti á landi og að útboðum verði flýtt til að vinna upp glataðan tíma. Vegaáætlun er samþykkt af Alþingi og studd samþykktum fjárlögum og getur enginn nema Alþingi sjálft fellt slíkt úr gildi. Það hefur ekki verið gert og þess vegna er tillaga þessi flutt.“
Tillagan var felld af meirihlutanum, öllum fulltrúum Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks í Samgöngunefnd.
Vestfirðingar verða því áfram að axla byrðarnar af stóriðjustefnunni, þenslunni og hagstjórnarmistökum ríkisstjórnar Sjálfstæðisflokks og Framsóknarflokks.
Jón Bjarnason,
þingmaður Vinstri Grænna í Norðvesturkjördæmi