22/11/2024

Blásið í Póstlúðurinn við Ísafjarðardjúp

Aðsend grein: Jón Bjarnason, þingmaður
Miðstýring og aukin fjarlægð stjórnenda fyrirtækja frá því samfélagi sem þeim er ætlað að þjóna er ein mesta ógnunin við dreifbýlið. Það virðist svo auðvelt að skipuleggja málin á skrifborði í hundraða kílómetra fjarlægð af stjórnendum sem jafnvel aldrei hafa stigið fæti í viðkomandi byggðarlag. En veruleiki fólksins er annar. Greiðasemi eða innri samfélagsvitund eru hugtök sem dvínandi virðing er borin fyrir, því miður. Þess eiga nú íbúarnir við Ísafjarðardjúp að gjalda. En hér gegna landpóstarnir lykilhlutverki í þjónustu við byggðina.

Fjölþætt hlutverk landpóstanna

Til þessa hefur landpósturinn komið með póstinn frá pósthúsinu í næsta kaupstað, Hólmavík eða Ísafirði og farið heim á hvern bæ. Ánægja hefur ríkt með þjónustu þeirra. Landpósturinn hefur í raun verið lítið pósthús á hjólum. Langt er á milli bæja við Djúp og hundruð kílómetra frá sumum þeirra til næsta þéttbýlis á Hólmavík eða Súðavík. Landpósturinn hefur því verið mikilvæg tenging við þessa bæi. Auk póstsins hefur hann gjarnan sinnt smáviðvikum svo sem að taka lyf eða nauðsynjavöru, jafnvel að taka farþega. En engar almenningssamgöngur eru við Djúp. Sumir hafa kallað það greiðasemi, en aðrir umhyggju fyrir náunganum, hvort tveggja dyggðir sem ætti að hlúa að frekar en hitt. Af fréttum að dæma á að skera á þessa tengingu landpóstsins.

Pósturinn að sunnan á að koma að næturlagi í skýli við þjóðveginn í Djúpinu þaðan sem honum er dreift á bæina daginn eftir. Af lýsingu yfirmanns hjá Íslandspósti hf er þetta skýli fjarri mannbyggð við þjóveginn og þar á pósturinn að bíða vörslulaus yfir nótt. Sama er væntanlega uppi á teningnum með póst sem fólk af bæjum við Djúpið vill senda frá sér. Með pósti eru send ábyrgðarbréf, lyf og margt fleira sem ætlað er að skila milliliðalaust til móttakenda. Slík meðferð á pósti nær engri átt hvort sem hún reynist lögleg eða ekki. Þetta mun vafalaust verða hagkvæmt fyrir Póstinn, en ekki fyrir fólkið ef marka má viðbrögð og mótmæli íbúanna sem vilja hafa góða þjónustu landpóstanna sinna áfram.

Stöndum með byggðinni við Ísafjarðardjúp

Víst er að kröfur íbúanna við Ísafjarðardjúp til samfélagsins eða einkaneysla þeirra kyndir hvorki undir þenslu né þjakar þjóðfélagið eða ríkisbúskapinn. En búseta þeirra, framleiðsla, verndun og nýting landgæða og menningararfs er öllum mikils virði, hún stækkar Ísland og okkur sem þjóð. Samgönguráðherra er yfirmaður Póstsins og ber einnig ábyrgð á almenningssamgöngum í landinu. Hlutaðeigandi sveitarfélög, Hólmavíkurhreppur og Súðavíkurhreppur bera líka skyldur gagnvart íbúunum. Vegna sérstöðu byggðarinnar við Djúp, dreifbýlis og mikilla vegalengda er erfitt að leggja þungar byrðar á þessi sveitarfélög. Hérna á samfélagið allt að koma til og ég er fullviss um að sá er vilji meginþorra þjóðarinnar. Enginn er eyland í þessum efnum og þjónusta Íslandspósts, landpóstsins er hluti af þessari heild.

Ég legg til að staldrað verði við, breytingum slegið á frest . Þessir aðilar allir sem ég hef nefnt, eiga nú þegar að taka sameiginlega og formlega á málinu. Þar skal haft að leiðarljósi hvernig megi efla og bæta fjölþætta þjónustu við byggðina, íbúana, í Ísafjarðardjúpi en ekki hvað sé að lágmarki hægt að bjóða uppá eða komast af með. Samfélagsþjónustan við íbúana í Ísafjarðardjúpi kemur okkur öllum við.

Jón Bjarnason, þingmaður Vinstri – grænna í Norðvesturkjördæmi