Aðsend grein: Sigurjón Þórðarson
Nýlega barst mér í hendur rit sem ber nafnið „Vaxtarsamningur Vestfjarða" og var ritið gefið út af ráðherra byggðamála, Valgerði Sverrisdóttur. Umræddur samningur virðist eftir lestur vera um nánast ekki neitt.
Ég hef áður gagnrýnt skýrslu Valgerðar Sverrisdóttir harðlega, skýrslu sem hún kallaði „Framvinda byggðaáætlunar fyrir árin 2002 til 2005" en sú reyndist samtíningur á hinum og þessum verkefnum ríkisins. Þess ber að geta að sum þeirra verkefna sem tínd voru til í þeirri skýrslu fóru aðallega fram á höfuðborgarsvæðinu. Ég gagnrýndi þá skýrslu sérstaklega fyrir það að í henni voru engin markmið og engar mælistærðir á árangur verkefnanna.
Að einhverju leyti virðist sem tekið hafi verið tillit til þeirrar gagnrýni í nýrri skýrslu þar sem að í Vaxtarsamningi Vestfjarða hafa verið sett þau markmið að árið 2020 yrðu íbúar Vestfjarða 8.300 en að öðru leyti er innihald skýrslunnar rýrt í roðinu.
Skýrslan Vaxtarsamningur Vestfjarða er uppfull af merkingarlitlu orðagjálfri sem virðist við nánari lestur verða æ merkingarlausara og stundum jaðrar textinn við að vera bull. Einn kaflinn hefst t.d. með þessari „fleygu" setningu:
Til að tryggja framgang þessara áherslna verði slíkt gert með sérstöku skipulegu samstarfi einkaaðila og opinberra aðila – sem hér er kallað vaxtarsamningur – einskonar sjálfbæru stjórnunar- og framkvæmdarferli.
Ekki veit ég hvað sjálfbær stjórnun er en það skiptir heldur ekki höfuðmáli. Aðalatriðið er að einungis 40 milljónir eru ætlaðar til verkefnisins árlega sem eiga að skiptast á milli ríkis, sveitarfélaga, einkaaðila og stofnana.
Í lok skýrslunnar er síðan samtíningur af 26 verkefnum víðs vegar að af Vestfjörðum og eru mörg hver mjög áhugaverð, s.s. bygging hótels á sunnanverðum Vestfjörðum, Héraðsskjalasafnið á Ströndum og uppbygging Ísafjarðar sem byggðakjarna.
Það sem er sammerkt með flestum verkefnunum 26 sem hengd eru aftan við vaxtarsamninginn er að þau hafa ekki verið kostnaðarmetin. Eitt er víst að þessar 40 milljónir munu vart ríða baggamuninn til þess að verkefnum verði hrint í framkvæmd.
Að drepa umræðunni á dreif
Er einhver meining á bak við aðgerðir stjórnvalda í byggðamálum á Vestfjörðum? Ég tel svo ekki vera nema þá að drepa umræðunni á dreif, því miður. Vestfirðingar eru orðnir langþreyttir á aðgerðaleysi stjórnvalda, vilja fá að sjá einhverjar aðgerðir, og þegar umræðan fer að nálgast suðupunkt slettir ríkisstjórnin nokkrum milljónum í Vestfirðinga og kannski enn einni skýrslunni í kaupbæti. Nú síðast var lofað upphæð í tvö verkefni á sviði sjávarútvegs. Upphæðin sem sett var í verkefnin svarar til launakostnaðar eins sendiherra og sömuleiðis var framangreint skýrsluskvaldur prentað í Reykjavík og sent vestur.
Kvótaflokkarnir skulda Vestfirðingum
Það er löngu tímabært að það fari að sjást einhverjar raunverulegar aðgerðir í byggðamálum. Sjálfstæðisflokkur og Framsóknarflokkur skulda Vestfirðingum aðgerðir en þeir bera ábyrgð á ástandinu þar sem sviptu Vestfirðinga atvinnuréttindum í sjávarútvegi og gerðu hann að söluvöru.
Höf: Sigurjón Þórðarson – www.althingi.is/sigurjon