22/11/2024

Tónleikar í Djúpavík

580-sildarverksmidjan-heimasida-djupavik
Laugardaginn 10. ágúst, kl. 22:00, heldur Anna Jónsdóttir tónleika í gamla lýsistanknum í Djúpavík! Á dagskrá tónleikanna eru íslensk þjóðlög. Þar er að finna lýsingar á fólki, börnum, fuglum, dýrum, fegurð náttúrnnar, óblíðum náttúruöflum, ástinni, veðrinu, draugum, þar eru vögguvísur, heilræðavísur, eftirmæli, bænir og Guð. Milli atriða mun Anna segja frá lögunum og kvæðunum.

Anna Jónsdóttir er fædd í Reykjavík. Hún lærði við Nýja Tónlistarskólann hjá Alinu Dubik og lauk þaðan burtfararprófi vorið 2003. Árið eftir stundaði hún nám við Tónlistarháskólann í Búkarest þar sem aðalkennari hennar var Maria Slatinaru. Hún lauk svo einsöngvaraprófi frá Nýja Tónlistarskólanum í nóvember 2004 undir handleiðslu Alinu Dubik. Anna hélt debut-tónleika í Hafnarborg haustið 2006. Árið 2008 gaf hún út sinn fyrsta hljómdisk, Móðurást, en á honum eru íslensk sönglög sem fjalla öll á einhvern hátt um móðurkærleikann.

 

Sumarið 2010 tók Anna þátt í alþjóðlegu tónlistarsamstarfi á vegum Music Art Omi International í Ghent í New York fylki, þar sem hún dvaldi sem gistilistamaður. 2012 tók hún þátt í tónlistarhátíðinni SonicExchange í Kassel í Þýskalandi. Síðustu ár hefur Anna tekið virkan þátt í íslensku tónlistarlífi með fjölda einsöngstónleika og þátttöku í stærri verkefnum. Hún hefur undanfarin ár leitað markvisst að nýjum leiðum til tónsköpunnar og söngiðkunnar. Anna er annar helmingurinn af Duo Mirabilis sem hefur starfað óslitið undanfarin 10 ár við ýmiss verkefni og tónleikahald, m.a. haldið kammertónleika í samstarfi við aðra tónlistarmenn.