Nýlega kom sérkennilegur steinn upp með netum hjá Guðmundi Ragnari Guðmundssyni skipstjóra á Drangsnesi. Steinninn er 30-40 cm á hverja hlið og í gegnum hann eru margar opnar rásir, 3-7 cm að stærð og eru þær sléttar að innan. Við nánari athugun á steini þessum, þá er ljóst að hér er um að ræða stykki úr svonefndum hverastrýtum. Steinninn ber með sér að hafa brotnað úr strýtu og hefur legið á sjávarbotninum í skamman tíma áður en hann festist í netunum. Steinninn kom upp við svonefndan Tangahrygg suður af Grímsey.
Hverastrýtur eru þekktar á tveimur öðrum stöðum á landinu, báðir í Eyjafirði, annar út undan Svalbarðsströnd og hinn norður af Arnarnesnöfum skammt norðan Hjalteyrar. Á þeim stöðum er mikið uppstreymi heits vatns og lífríki óvenjulega fjölbreytt. Strýturnar undan Svalbarðsströnd ná um 50 metra hæð en 10 metra hæð undan Arnarnesnöfum.
Ekki er að efa að virkar hverastrýtur eru í eða við Tangahrygginn. Af stærð opanna á steinunum úr Steingrímsfirði verður ekki annað ráðið en að geysimikið heitavatnsstreymi sé á þessum slóðum.
Það hefur lengi verið álit jarðfræðinga sem fást við jarðhitarannsóknir að jarðhiti komi víða upp úti í sjó, en afar erfitt getur verið að finna þessa staði. Því er það mikið hagsmunamál að sjómenn láti vita af slíkum stöðum ef þeir verða varir við þá.
Þeir sem geta veitt upplýsingar um jarðhita í sjó eða grunsamlega staði eru beðnir um að hringja í Hauk Jóhannesson í síma 862 8426 eða senda skilaboð á tölvunetfang hjohannesson@simnet.is.