22/11/2024

Landslið Íslands í krullu keppir í Tyrklandi


Fimm liðsmenn Mammúta frá Krulludeild Skautafélags Akureyrar skipa landslið Íslands í krullu árið 2012, en einn þeirra er Strandamaðurinn Ólafur Númason. Liðið er nú statt í Erzurum í Tyrklandi og keppi rí C-keppni Evrópumótsins sem stendur yfir  5.-11. október. Með sigri á Íslandsmóti í krullu tryggir lið sér rétt til að leika fyrir Íslands hönd (sem landslið) á Evrópumótinu. Mammútar hafa nú síðastliðin fjögur ár hampað Íslandsmeistaratitlinum þrisvar. Hægt er að fylgjast með árangrinum á vef mótsins www.emcc-ecc2012.org/.  

Lið Íslands etur kappi við Hvíta Rússland, Króatíu, Lúxemborg, Rúmeníu, Slóveníu og Tyrkland. Tvö efstu lið keppninnar tryggja sér þátttökurétt í B-keppni Evrópumótsins í Svíþjóð í desember og voru Íslendingar staðráðnir í því að tryggja sér þátttöku þar. Landslið Íslands skipa: Jens Kristinn Gíslason fyrirliði, Jón Ingi Sigurðsson, Ólafur Númason, Sveinn H. Steingrímsson og Ragnar Jón Ragnarsson varamaður.

Nánari upplýsingar um liðið og þátttöku þess í mótum hér innanlands er að finna á vef krulludeildar Skautafélags Akureyrar, www.curling.is. Einnig er hægt að nálgast upplýsingar um gang mótsins á vefsíðu landsliðsins www.curling-iceland.is, þar verða birt úrslit sem og myndir frá mótinu.