Nú stendur yfir sala á hlutum Ferðamálasamtaka Vestfjarða í ferðaskrifstofunni Vesturferðum. Fyrir söluátakið var eignarhlutur samtakanna í Vesturferðum 70,2%, en ætlunin er að eftir standi eignarhlutdeild upp á um 25%. Hagsmunaaðilar og ferðaþjónar geta keypt hluti að upphæð 50-500 þúsund en seldir verða hlutir fyrir samtals 7 milljónir. Hluti af því er hlutafjáraukning í Vesturferðum að upphæð rúmar 2,5 milljónir. Greiðslutímabil kaupverðs á hlutum er 15. ágúst til 25. september 2011 og eiga kaupendur að leggja inn á bankareikning Ferðamálasamtakanna 0154-15-550230, kt. 541186-1319.
Ætlunin með hlutafjáraukningunni og sölu hlutanna er að fá ferðaþjóna á Vestfjörðum og alla sem áhuga hafa á vestfirskum ferðamálum til að kaupa hlut. Tilgangur Ferðamálasamtaka Vestfjarða með kaupum á hlutum í Vesturferðum var að skapa vettvang til að byggja upp sameiginlega sýn sem stuðlar að styrkingu ímyndar svæðisins.
Samræma þarf aðgerðir í ferðamálum á Vestfjörðum og tryggja öfluga gátt með skilvirka bókunarþjónustu, sem skilar arði til að fjármagna markaðssetningu svæðisins í heild. Hagsmunir ferðaþjóna verða hafðir að leiðarljósi við rekstur félagsins og reiknað er með sterkri tengingu við Markaðsstofu Vestfjarða. Ætlunin er að vefsíðan www.westfjords.is verði gagnvirk sölusíða fyrir alla ferðaþjónustu á Vestfjörðum.
Nánari upplýsingar veitir Sigurður Arnfjörð á Núpi í síma 864 9737.