22/11/2024

Ferðamálasamtök Vestfjarða gera kauptilboð í Vesturferðir

Í tilkynningu frá Ferðamálasamtökum Vestfjarða kemur fram að samtökin hafa gert tilboð í meirihlutaeign í ferðskrifstofunni Vesturferðum sem starfað hefur á Ísafirði og nágrenni árum saman. Fram kemur að ferðaþjónum og öðrum verður boðið að taka þátt í verkefninu og gerast hluthafar. Í tilkynningu sem undirrituð er af Sigurði Atlasyni formanni Ferðamálasamtakanna segir, að ætlunin sé að nýta fyrirtækið við að koma á laggirnar öflugri upplýsinga- og sölugátt með bókunarþjónustu fyrir alla Vestfirði. Einnig að selja pakkaferðir, vörur og þjónustu og kynna á einum stað allt sem í boði er á Vestfjörðum. Tilkynningin er svohljóðandi:  

Ferðamálasamtök Vestfjarða hafa gert kauptilboð í meirihluta í ferðaskrifstofunnar Vesturferðir. Ætlunin með kaupunum er að tryggja öfluga upplýsinga- og sölugátt með skilvirkri bókunarþjónustu sem allir ferðaþjónustuaðilar í fjórðungnum hafi aðgang að. Unnið verður í nánu samstarfi við Markaðsstofu Vestfjarða og vefgáttin westfjords.is verður einnig nýtt til kynningar og sölu á vöru og þjónustu sem er í boði hverju sinni á svæði Ferðamálasamtaka Vestfjarða.

Með kaupunum mun gefast tækifæri fyrir öflugri samvinnu meðal allrar ferðaþjónustunnar með því að opna einn risastóran markað á vestfirskri ferðaþjónustu og opna sölugátt þar sem hægt verður að versla beint allar þær vörur sem eru í boði í greininni. Gisting, afþreying, ferðapakkar og hvað annað sem vestfirsk ferðaþjónusta hefur upp á að bjóða verði öll á einum stað og viðskiptavinir munu ekki þurfa að velkjast um hvað er í boði í fjórðungnum. Auk þess eiga viðskiptavinir að geta verslað alla þjónustu sem þeim þóknast beint frá Vestfjörðum áður en af stað er haldið. Eins og staðan er í dag þá getur verið frekar flókið að átta sig á því hvað er raunverulega í boði í fjórðungnum og skilaboð eru oft misvísandi.

Ætlunin er að mjög breið samstaða verði um eignarhald Vesturferða og félagið verði nýtt sem allsherjar bókunarmiðstöð fyrir vestfirska ferðaþjónustu. Hagnaður af bókunargjöldum félagsins mun renna til markaðssetningar alls fjórðungsins og stórauka þannig fjármagn til markaðssetningar. Öllum verður gefinn kostur á að kaupa hlut í félaginu en Ferðamálasamtökin munu strax selja stóran part af 53% hluta sínum í Vesturferðum og stefnt er að því að auka nokkuð hlutafé í félaginu. Þannig mun öllum gefast kostur á að kaupa hluti upp á 50 þús til 500 þús krónur á næstunni og verða um leið meiri áhrifaaðilar fyrir markaðssetningu fjórðungsins.

Ef af kaupunum verður er ætlunin að breyta nöfnum Vesturferða / West Tours og nota frekar heiti sem gefur skýrt til kynna á hvaða svæði á Íslandi ferðaskrifstofan starfar. Ekki er þó stefnt að því að verulegar breytingar muni eigi sér stað á rekstri Vesturferða fyrst um sinn. Það verður ekki ráðist í breytingar á rekstrinum á einni nóttu og tryggt verður að staðið verði við alla samninga sem fyrir liggja gagnvart viðskiptavinum félagsins. Framundan er mikil stefnumótunarvinna innan fyrirtækisins sem þarf að liggja fyrir á næstu vikum.

Fyrirkomulag þessarar aðferðarfræði er sótt til reynslu sveitarfélagsins Levi í Finnlandi www.levi.fi. Levi er bær sem fær um 600.000 ferðamenn á ári, en fyrir 30 árum kom þangað varla nokkur ferðamaður. Fyrirkomulagið einkennist af samvinnu og samræmingu. Markaðsstofan þar rekur upplýsingamiðstöð, viðburðarþjónustu, bókunarþjónustu og margt fleira. Ferðaþjónar greiða fasta upphæð á ári og svo bókunargjald. Markaðsstofan í Levi hefur því til umráða 2,5 miljónir € til markaðsaðgerða en heildarframlag opinberra aðila er þar innan við 14%.

Það er nokkuð fyrirsjáanlegt að fé frá opinberum aðilum til greinarinnar muni fara minnkandi á komandi árum. Auk þess er fyrirséð að ákvörðunarréttur Markaðsstofu Vestfjarða um nýtingu þeirra fjármuna verður einnig skertur. Því er það nauðsynlegt að vestfirsk ferðaþjónusta snúi strax vörn í sókn og sæki fram í krafti samvinnu allra ferðaþjónustuaðila í fjórðungnum.

Þó það sé ekki beinlínis ætlunin að sækja fleiri hundruð þúsund ferðamanna á Vestfirði með þessari aðferð, þá er það alveg ljóst að miðað við núverandi fyrirkomulag á markaðssetningu íslenskrar ferðaþjónustu þá eru Vestfirðir ekki að fá þann hlut sem þeir ættu að geta með betur samræmdu markaðs- og bókunarkerfi. Í dag eru Vestfirðir með 3% markaðshlutdeild í erlendum gistinóttum. Þannig hefur það verið um nokkurn tíma. Með þessari aðferð hafa Vestfirðingar betri stjórn á því hvaða skilaboð eru send til umheimsins sem varða vestfirska ferðaþjónustu.

Vestfirsk ferðaþjónusta hefur skorað hátt í könnunum undanfarið og umfjöllun áberandi miðla eins og Lonely Planet sýna það svart á hvítu að sérstaða Vestfjarða er algjör. Það hlýtur að vera undir okkur sjálfum komið að selja vörur okkar. Það er nokkuð augljóst að það kerfi sem unnið hefur verið með hefur ekki verið að virka eins og best verður á kosið. Samvinna er lykilorðið. Samvinna er það sem fyrst og fremst hefur fært ferðaþjónustuna í sveitarfélaginu Levi í Finnlandi fram á veginn svo dæmi sé tekið.