Stofnað hefur verið félag sem ber heitið Grænn apríl og er tilgangur þess að vinna að því að gera aprílmánuð að grænum mánuði á Íslandi þar sem lögð er áhersla á að kynna og bjóða upp á upplýsingar um þekkingu, vöru og þjónustu sem telst vera græn og umhverfisvæn. Ætlunin er að vekja landsmenn til frekari vitundar um að við þurfum að gæta að náttúrunni og umhverfi okkar. Einnig að hvetja aðila sem selja þekkingu, vöru eða þjónustu sem er annað hvort umhverfisvottuð, af Fair Trade uppruna eða telst umhverfisvæn á einn eða annan máta, til að kynna sig og starf sitt sérstaklega í apríl.
Þá skiptir ekki minna máli að hvetja til umræðu um mikilvæg skref sem taka verður til að vernda náttúru landsins svo að komandi kynslóðir fái notið hennar á sama hátt og við njótum hennar í dag. Vefsíða Græns apríls er á slóðinni www.graennapril.is og félagið má einnig finna á Facebook.