22/11/2024

Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga ályktar um raforkuöryggi

Á fundi stjórnar Fjórðungssambands Vestfirðinga þann 11. mars var gerð eftirfarandi samþykkt varðandi nýútkomna skýrslu starfshóps Iðnaðarráðherra um Orkuöryggi á Vestfjörðum – Áhrif á samkeppnisstöðu og atvinnuþróun.  Skýrslan var kynnt af iðnaðarráðherra, orkumálastjóra og fulltrúa Landsnets á opnum fundum á Patreksfirði og Ísafirði þann 7. mars. Stjórn Fjórðungssambands Vestfirðinga lýsir ánægju með að skýrsla starfshóps iðnaðarráðherra sé nú loks komin fram og þeim tillögum sem þar eru fram settar.  

Stjórn Fjórðungssambandsins leggur áherslu á, að nú er viðurkenndur sá vandi sem atvinnulíf og samfélög á Vestfjörðum hafa staðið frammi fyrir um áratuga skeið og þannig skaðað ímynd og samkeppnisstöðu svæðisins. Tekur stjórn undir tillögu starfshópsins að gefin verði afsláttur á kostnaði við flutning raforku á meðan þetta ástand varir. 

Stjórn leggur áherslu að hraðað verði gerð tímasettra áætlana er varðar uppbyggingu varaafls, rannsóknum er varða nýja virkjunarkosti og hringtengingu flutningskerfis fyrir raforku og gagnaflutninga. Auk þess leggur stjórn áherslu á gerð áætlunar um þrífösun rafmagns í dreifbýli.