22/11/2024

Riishús-dagur í undirbúningi á Borðeyri

BorðeyriÍ Bændablaðinu sem kom út í vikunni kemur fram að undanfarin ár hefur verið unnið að endurbyggingu Riis-húss á Borðeyri. Nú er fyrirhugað að eftir viku, sunnudaginn 20. mars, verði haldinn svokallaður Riishús-dagur. Fjölbreytt dagskrá verður í skólahúsinu á Borðeyri kl. 14:00 þann dag, kaffihlaðborð og skoðunarferð um Riishús undir leiðsögn þaulkunnugra, Georgs Jóns Jónssonar á Kjörseyri og Sverris Björnssonar í Brautarholti. Einnig var nýverið opnuð Facebook síða Riishúss á Borðeyri.

Á söguöld og lengi síðan var Borðeyri almennur verslunarstaður, en á síðari öldum þegar siglingar landsmanna lágu niðri er verslunar á Borðeyri vart getið. Um miðja 19. öld varð breyting þar á. Árið 1845 samþykkti Alþingi tillögu Jóns Sigurðssonar um að Borðeyri yrði löggiltur verslunarstaður sem gekk eftir með konungsbréfi þann 23. desember 1846. Tveimur árum seinna, í júlí 1848, sigldi svo fyrsta skipið með vörur inn Hrútafjörð og komst heilu og höldnu til Borðeyrar þrátt fyrir óblíð veður.

Föst verslun hófst þó ekki á Borðeyri fyrr en upp úr 1860 þegar Pétur Eggerz reisti þar fyrsta verslunarhúsið sem fyrst var kallað Faktorshús og síðan Riis-hús. Pétur Eggerz flutti til Borðeyrar 1857 og var mikill athafnamaður. Fleiri stórkaupmenn ráku verslun á Borðeyri, m.a. Richard P. Riis sem keypti báðar kaupmannaverslanirnar sem fyrir voru á staðnum. Stofnaði hann útibú á Hólmavík árið 1896 og Hvammstanga 1898 og má segja að það hafi verið upphaf þeirra staða.

Riis var mikils metinn kaupmaður og þótti áreiðanlegur. Riisverslun var rekin á Borðeyri til ársins 1930 en þá keypti Kaupfélag Hrútfirðinga hana og hafði þar verslun til áramótanna 2004-2005 en þá tók verslunin Lækjargarður við og starfaði til 2007.