22/11/2024

Lakara orkuöryggi á Vestfjörðum

Raforkuöryggi í hættuOrkuöryggi á Vestfjörðum er lakara en í öðrum landshlutum og fylgir því tilheyrandi samfélagskostnaður. Katrín Júlíusdóttir, iðnaðarráðherra skipaði ráðgjafahóp í nóvember 2009 og var hlutverk hans m.a. að kortleggja núverandi stöðu, meta áhrif raforkuöryggis á möguleika til atvinnuuppbyggingar og hagvaxtar og gera tillögur um aðgerðir til að bæta raforkuöryggið í fjórðungnum. Frá þessu er sagt á vef Iðnaðarráðuneytisins.

Ráðgjafahópurinn hefur nú skilað skýrslu, sem finna má undir þessum tengli, og kynnti Katrín Júlíusdóttir hana í vikunni fyrir Vestfirðingum á fundum á Patreksfirði og Ísafirði og var þeim síðarnefnda varpað til Hólmavíkur um fundabúnað. Í skýrslu hópsins er gerð grein fyrir mismunandi sviðsmyndum um úrbætur og framtíðaruppbyggingu flutningskerfisins og hvernig megi styrkja það, t.d. með nýjum smærri og stærri virkjunum á svæðinu. Þá leggur ráðgjafahópurinn til að í samráði við Landsnet verði gerð áætlun um hringtengingu raforkuflutnings fyrir Vestfirði sem gæti skipt miklu máli fyrir Strandir ef um raunverulega hringtengingu verður að ræða í stað tvöföldunar. Að auki verði gerð heilstæð rannsóknaráætlun fyrir raforkuframleiðslu á Vestfjörðum.

Í ráðgjafahópnum voru Guðni A Jóhannesson, orkumálastjóri, Matthildur Helga- og Jónudóttir, framkvæmdastjóri Snerpu á Ísafirði og Þorgeir Pálsson, formaður Atvinnuþróunarfélags Vestfjarða (til nóv. 2010).