21/11/2024

SMS galdrar á Ströndum

GaldrasýninginUndanfarna mánuði hefur Strandagaldur á Hólmavík unnið að margskonar hugmyndum um eflingu þjónustu til ferðamanna á svæðinu og þar hefur m.a. komið upp sú hugmynd að taka í notkun samskipta- og upplýsingatækni sem byggir á notkun farsímakerfisins.

Verkefnið hefur verið unnið í samstarfi við Hex hugbúnað og stefnt er að hefja notkun þess í maí 2005.

Hugmyndin er að merkja sérstaklega athyglisverða staði og valdar gönguleiðir og gefa fólki tækifæri á að sækja upplýsingar í símann sinn. Sett verði upp skilti á ákveðnum stöðum þar sem verður að finna upplýsingar um hvort framundan sé gönguleið, reiðhjólaleið, sérstakur sögustaður eða athyglisverður staður. Á skiltinu verður heiti á staðnum og upplýsingar um í hvaða númer skal senda SMS skeyti til að fá senda til baka litla síðu í símann með texta, korti og ljósmyndum. Einnig er að því stefnt að upplýsingar liggi frammi á upplýsingamiðstöðvum og í prentuðu efni útgefnu fyrir ferðamenn.Raunar er hægt að hugsa sér að merkja ótal staði og efni. Þar má nefna sérstakar byggingar, upplýsingar um kauptún, bæi, gönguleiðir, örnefni, sögustaði, tröll, álfhóla, vegi, vötn, firði, fjöll og fossa og raunar allt það sem hægt er að láta sér detta í hug og þykir hæfa aðstæðum.

Í náinni framtíð er ástæða til að ætla að farsímar verði mikilvæg tæki til að koma á framfæri upplýsingum til ferðamanna um ferðaþjónustu, menningu og afþreyingu og að farsíminn verði nauðsynlegt hjálpartæki til að þeir fái sem mest út úr ferðinni. Í þessu verkefni felst mikil nýsköpun í samskiptatækni sem ástæða er til að nýta út í ystu æsar um allt land.

Á Ströndum eru miklir möguleikar á að nýta þessa tækni og að koma henni á koppinn, ekki síst vegna mikils áhuga heimamanna á að standa sig vel í grunnþjónustunni og Strandagaldursmenn stefna að því að útvíkka hugmyndina enn frekar.