22/11/2024

Nýir skólastjórnendur við Grunnskólann og Tónskólann á Hólmavík

Fréttatilkynning frá Strandabyggð 
Nýlega var Bjarni Ómar Haraldsson ráðinn skólastjóri við Grunnskólann á Hólmavík. Bjarni Ómar tekur við af Victori Erni Victorssyni sem gengdi starfi skólastjóra til fjölda ára. Bjarni Ómar er 41 árs í sambúð með Öldu Guðmunsdóttur frá Raufarhöfn og eiga þau tvö börn. Bjarni hefur starfað sem kennari við fyrir Grunn- og Tónskólann á Hólmavík frá árinu 2003 eða eftir að hann færði sig um set frá vinabænum Raufarhöfn þar sem hann starfaði sem kennari við Tónlistarskólann frá árinu 1993 og sem kennari við Grunnskólann á Raufarhöfn frá árinu 1997-2003. Veturinn 2008-2009 tók Bjarni síðan við deildarstjórstarfi í Tónskólanum á Hólmavík. Í vetur hefur Bjarni sinnt starfi aðstoðarskólastjóra ásamt því að kenna við Tónskólann og veita félagsmiðstöðinni Ozon forstöðu.

Bjarni lauk námi til B.A gráðu í Tómstunda- og félagsmálafræði við Kennaraháskóla Íslands í júní 2006, Kennsluréttindanámi frá Kennaraháskóla Íslands í júní 2008 og Grunnskólakennararéttindum til B.ed gráðu frá Háskóla Íslands í febrúar 2010 þar sem kjörsvið hans var íslenska. Með menntun sinni hefur Bjarni því fengið leyfisbréf til að starfa sem grunn- og framhaldsskólakennari.

Bjarni hefur fengist við fjölmargt fyrir og samhliða kennslustörfum sínum. Hann starfaði meðal annars sem togarasjómaður, verkamaður í áhaldahúsinu á Raufarhöfn, hafnarvörður og lóðs við Raufarhafnarhöfn, húsvörður og rekstraraðili félagsheimilis, Umboðsaðili Olís á Raufarhöfn, framkvæmdastjóri Íslenskrar miðlunar á Raufarhöfn, sem þá var leiðandi fyrirtæki í fjarvinnslu á Íslandi, æskulýðs- og íþróttafulltrúi Raufarhafnar á árunum 2000-2003, forstöðumaður vinnuskólans á Hólmavík, þjálfari fyrir íþróttafélögin Austra og Geislann um árabil og framkvæmdastjóri bæjarhátíðarinnar Hamingjudagar á Hólmavík árin 2005-2007.

Bjarni hefur getið sér gott orð sem tónlistarmaður, í yfir tuttugu ár með hljómsveitinni Kokkteill frá Raufarhöfn og sem Trúbador og hefur gefið út tvær sólóplötur. Þá hefur hann komið að ýmsum verkefnum sem tengjast þróun grunn- og tónlistarskólanna á Raufarhöfn og Hólmavík, verið formaður Skólanefndar Raufarhafnarhrepps og foreldrafélags Grunnskólans á Raufarhöfn. Lokaverkefni Bjarna til B-ed gráðu fjallar um sameiningu Grunn- og Tónskólans á Hólmavík og hvað hefur áunnist í skólastarfinu á undanförnum árum.  Verkefnið er aðgengilegt á Héraðsbókasafninu.

Einnig var Hildur Guðjónsdóttir ráðin sem aðstoðarskólastjóri vegna námsleyfis Kristjáns Sigurðssonar í eitt ár. Bjarni Ómar og Hildur eru þegar tekin til starfa með Kristjáni og nýta síðustu daga skólaársins vel við að skipuleggja skólastarfið fyrir næsta skólaár.

Hildur er 28 ára gift Arnari Snæberg Jónssyni frá Steinadal í Kollafirði og eiga þau þrjá syni. Hún er fædd og uppalin í Reykjavík, var í Seljaskóla og síðar í Menntaskólanum við Sund.

Hildur hefur starfað við Grunnskólann á Hólmavík frá árinu 2003 en samhliða starfi sínu þar stundaði hún nám við Kennaraháskóla Íslands og útskrifaðist sem grunnskólakennari vorið 2008 með myndmennt, upplýsingatækni og miðlun sem aðalkjörsvið. Auk þess hefur Hildur unnið við sérkennslu á leikskólanum Lækjarbrekku og vann áður hjá Menntaskólanum á Ísafirði sem leiðbeinandi fatlaðs einstaklings á starfsbraut skólans. Aðspurð segir Hildur áherslu sína í skólastarfi vera á mannleg gildi, traust og virðingu fyrir skoðunum einstaklinga sem og hópnum í heild. Hildur leggur áherslu á að vera virk í miðlun upplýsinga til foreldra og að aukin tenging heimilis og skóla geti verið skólastarfinu mjög til framdráttar. Hildur er áhugamanneskja um markvissa skólaþróun og telur að skóli af þeirri stærðargráðu sem Grunnskólinn á Hólmavík er hafi mikla og fjölbreytta möguleika á að vaxa og dafna í nútíma skólasamfélagi, ekki síst þar sem kennarakostur skólans er þéttur og jákvæður hópur sem býr yfir víðtækri menntun og reynslu.

Að loknu ráðningarferli sveitarfélagsins var ráðningin þeirra Hildar og Bjarna samþykkt einróma af skólanefnd og sveitarstjórn Strandabyggðar. Sveitarfélagið Strandabyggð óskar Bjarna og Hildi velfarnaðar í nýju starfi og skólastarfinu heilla. Það er ljóst að hin nýja forysta Grunnskólans og Tónskólans býr yfir þekkingu sem miklar vonir eru bundnar við um áframhaldandi þróun hins góða skólastarfs hér á Hólmavík. Þá er einnig ljóst að það er mikil áskorun fólgin í því að taka við skóla sem undanfarin ár hefur byggst upp af hæfu starfsfólki undir stjórn fráfarandi skólastjórnenda. Það eru því miklar væntingar samfara því að hafa náð til skólans jafn hæfum og vel menntuðum stjórnendum og hér hefur tekist.