25/11/2024

Ferðamálasamtök Vestfjarða álykta um vegamál

Á fjölmennum aðalfundi Ferðamálasamtaka Vestfjarða á Hótel Núpi þann 17. apríl 2010 var eftirfarandi ályktun lögð fram og samþykkt samhljóða.

Aðalfundur Ferðamálasamtaka Vestfjarða skorar á stjórnvöld að skera ekki niður framlög til samgöngumála í fjórðungnum. Bættar samgöngur eru forsenda uppbyggingar í ferðaþjónustu á Vestfjörðum.“ Í tilkynningu frá samtökunum kemur fram að frá því aðalfundurinn var haldinn hefur verið tekin ákvörðun um að fella Dýrafjarðargöng úr samgönguáætlun. Ferðamálasamtök Vestfjarða hljóta að mótmæla því harðlega og krefjast þess að íbúar á Vestfjarðakjálkanum sitji við sama borð og aðrir landsmenn þegar kemur að ákvörðunum um vegamál.


 
Með þessari ákvörðun er verið að skerða verulega samkeppnishæfni
vestfirskra fyrirtækja til lengri tíma. Vegabætur í fjórðungnum hafa
verið langt á eftir öðrum landshlutum í áratugi. Sú ákvörðun Alþingis að
fella Dýrafjarðargöng út úr samgönguáætlun lýsir fyrst og fremst
fullkomnu skilningsleysi gagnvart íbúum fjórðungsins og setur
stefnumótunarvinnu ferðaþjónustunnar í uppnám, sjá nánar

www.vestfirskferdamal.is.