Hrútfirðingar eru hvattir til að taka frá laugardaginn 13. febrúar. Þá verður þorrablót á Borðeyri og ef fer sem horfir verður enginn svikinn um góða skemmtun. Þorrablótið er að vanda haldið af Ungmennafélaginu Hörpu og Kvenfélaginu Iðunni. Einar Georg flytur gestum blótsins annál ársins og mun þar m.a. leita svara við spurningum eins og hvað sé eiginlega búið að setja á gólfin í skólanum, hvort Hrollvinafélag Borðeyrar hafi verið stofnað í sumar, hvernig fjárleitir gengu síðasta haust og hvort Hannes sé enn að kaupa leiktæki. Fjörið í dansinum verður í höndum þeirra Bjarna Ómars og Stefáns Jónssonar á Hólmavík.