22/11/2024

Vinstri grænir mótmæla

Orrkubú VestfjarðaVefnum hefur borist harðorð yfirlýsing frá þingflokki Vinstri grænna, þar sem sameiningu og einkavæðingu raforkufyrirtækja er mótmælt kröftuglega. Ennfremur birtist hér á vefnum í dag undir Aðsendar greinar pistill eftir Jón Bjarnason þingmann Vinstri grænna í Norðvesturkjördæmi um málið. Ályktun þingflokksins hljóðar svo:

„Þingflokkur Vinstrihreyfingarinnar – græns framboðs lýsir furðu sinni á bollaleggingum Valgerðar Sverrisdóttur iðnaðarráðherra um sameiningu orkufyrirtækja. Þingflokkurinn mótmælir harðlega öllum áformum ráðherrans um frekari markaðs- og einkavæðingu almannaþjónustu á sviði orkuframleiðslu og orkudreifingar á næstu árum. Hugmyndir ráðherrans ganga þvert á vilja heimamanna á svæðum Rafmagnsveitna ríkisins og Orkubús Vestfjarða. Þessi áform, ef af verður, fela í sér hrein svik á þeim loforðum sem Vestfirðingum voru gefin um áframhaldandi sjálfstæðan rekstur Orkubúsins og óbreytt umsvif vestra þegar sveitarfélögin neyddust til að selja Orkubúið vegna erfiðrar fjárhagsstöðu fyrir nokkrum árum.

Kerfisbreytingar í raforkumálum um síðastliðin áramót hafa nú leitt til umtalsverðra hækkana raforkuverðs þvert ofan í það sem iðnaðarráðherra hafði fullyrt. Mikil óvissa er um þróun mála á þessu sviði og afkomuhorfur og efnahag fyrirtækjanna, ekki síst Landsvirkjunar, vegna óhagstæðra samninga um orkusölu til nýrrar stóriðju. Bollaleggingar ráðherra nú um frekara umrót í orkugeiranum eru í öllu falli hreinn glannaskapur. Auk þess á augljóslega að fórna hagsmunum íbúa landsbyggðarinnar og allra almennra raforkunotenda eina ferðina enn í þágu einkavæðingarstefnunnar og til að greiða niður tapið af orkuútsölunni til stóriðjunnar."