Sveitarstjórn Bæjarhrepps hélt íbúafund í Grunnskólanum á Borðeyri þann 28. mars síðastliðinn.
Mjög vel var mætt á fundinn, en um 40 manns mættu. Fundurinn hófst með framsöguræðu oddvitans Sigurðar Kjartanssonar. Þar fór hann yfir þau helstu málefni sem á daga sveitarstjórnar hefur drifið sem af er kjörtímabili. Kom hann meðal annars inn á að blikur væru á lofti um að greiðslur úr Jöfnunarsjóði sveitafélaga gætu skerðst. Að framsögu lokinni hófust þegar miklar umræður um sveitarstjórnarmálin. Margir fundargesta tók til máls, ýmist með beinar spurningar til sveitastjórnarmanna og eins lögðu íbúar fram hinar ýmsu hugmyndir um verkefni sem þeir vildu sjá að framkvæmd yrðu hið fyrsta.
Eins og svo oft, þá voru skipulagsmálin verulega ofarlega í hugum fundargesta. Nýtt deiliskipulag fyrir Borðeyri hefur nýlega verið auglýst í B-deild stjórnartíðinda til gildistöku og höfðu margir íbúar sveitarfélagsins sterkar skoðanir um þá framkvæmd og fannst að áður en til þess kom hefði mátt vanda betur til verka. Fram kom að töluverður skoðanamunur er á milli minni- og meirihluta í sveitastjórn er varðar skipulagsmálin almennt í Bæjarhreppi.
Umræðan um skipulagsmálin endaði með að lögð var fram fundarályktun um áskorun til sveitarstjórnarinnar um að hraða sem kostur er að ganga frá skipulagsmálum í landi Fögrubrekku er varðar þjónustulóð. Var ályktunin samþykkt með miklum meirihluta og enginn henni andvígur.
Töluverðar umræður urðu einnig um skólahúsið, sem má kannski segja að sé hjartað í sveitafélaginu, þar fer uppfræðslan fram og svo gegnir húsið líka hlutverki samkomuhúss. Hugmyndir eru uppi um að gera á því miklar breytingar. Höfðu menn mjög skiptar skoðanir á þessu, reiknuðu margir með því að þetta yrði mjög dýrt og töldu ekki tímabært. Vildu margir aðra forgangsröðun og að frekar yrði farið í að klára húsið samkvæmt upphaflegri teikningu og töldu einnig brýnna að huga að því viðhaldi sem liggur fyrir og klára lóðina umhverfis húsið. Töldu menn þetta mun ódýrari kost en stórvægilegar breytingar og vísuðu til orða oddvita um hugsanlega tekjuskerðingu. Lögð var fram ályktun til sveitastjórnar er þetta varðar og var ályktunin samþykkt með meirihluta fundagesta.
Hörð gagnrýni kom fram á fundinum á þá ákvörðun meirihluta sveitarstjórnar snemma kjörtímabils að leggja niður bókhaldsvinnslu sveitarfélagsins hérna heima og kaupa þá þjónustu að. Fannst mörgum fundamönnum þetta verulega gagnrýnisvert, því þessi ákvörðun stuðlaði ekki að því þýðingarmikla atriði sem ætti að vera kappsmál hverjar sveitarstjórnar, að efla atvinnulífið innan síns eigin sveitarfélags. Oddviti sagði þetta pólitíska ákvörðun, án frekari skýringa.
Umræður fór svo vítt og breitt um málefni sveitafélagsins, tóku sorpmálin, umhverfismálin, brunavarnirnar og ekki síst málefni hitaveitunnar þar töluverðan tíma. Til dæmis er ekki fyrir hendi móttaka fyrir garðúrgang, og fannst mönnum almennt óþarflega draslaralegt á Borðeyrinni. Það var álit margra að brunavarnir sveitafélagsins væru ekki sem skyldi. Einnig að lítið hefði þokast í málefnum hitaveitunnar á kjörtímabilinu.
Kom m.a. fram í svörum sveitastjórnar er varðar brunavarnirnar að gerður hefði verið samningur við Eldstoðir ehf um brunaúttektir og námskeiðahald, einnig væru í gangi viðræður við nágrannasveitafélög um samvinnu í þessum málaflokki.
Mjög athyglisverðar upplýsingar komu fram á fundinum er varðar kostnað sveitarfélagsins af málaflokknum fræðslu og uppeldismál. Í ársreikningum sveitarfélagsins fyrir árin 2006 og 2007 kom fram að þessi kostnaður væri allt að 75% af skatttekjum sveitarfélagsins fyrir 2006 og fast að 90% fyrir árið 2007. En upplýst var á fundinum að endurskoðendur sveitarfélagsins höfðu nýverið uppgötvað reikningsskekkju er þennan málaflokk varðar. Eftir leiðréttingu þá reyndist kostnaður sveitarfélagsins af áður greindum málaflokki vera um 68% af árstekjum sveitarfélagsins þessi ár, telst það vel viðunandi sé miðað við önnur sveitarfélög að svipaðri stærðargráðu.
Almennt má segja að fundurinn hafi verið málefnalegur. Eins og áður sagði þá tóku margir íbúar til máls og flestir sveitarstjórnarmenn, en fyrir svörum voru fyrst og fremst oddvitar listanna, Sigurður Kjartansson fyrir L-lista og Ingibjörg Rósa Auðunsdóttir fyrir H-lista.
Íbúafundir sem þessi snúast kannski oftast fyrst og fremst um gagnrýni á störf sveitarstjórnar. Það er í sjálfu sér ekki óeðlilegt að svo sé þegar íbúafundur er ekki haldinn fyrr en seint á kjörtímabilinu. Það ætti að vera markmið hverrar sveitarstjórnar að halda íbúafund í byrjun hvers kjörtímabils, þar sem sveitastjórn leggur fram hugmyndir sínar og stefnumótun fyrir komandi kjörtímabil. Þá fá íbúarnir í tíma möguleika á að koma sínum sjónarmiðum á framfæri og verða þar af leiðandi að hluta til virkt afl, þ.a.e.s. ef lýðræðið virkar.
Ef íbúafundir eru svo haldnir reglulega á kjörtímabilinu, t.d. einu sinni á ári, þá hafa íbúarnir áfram kost á að hafa virk áhrif. Svoleiðis fyrirkomulag ætti að auðvelda sveitarstjórnum að ná því markmiði að stjórna ávalt með hagsmuni samfélagsins alls að leiðarljósi.
Hér hefur verið stiklað á því helsta sem fram kom á þessum fundi, of mikið mál væri að gera honum alveg tæmandi skil í svona grein. Að fundi loknum bauð sveitarstjórn öllum er fundinn sátu í kaffiveislu.