22/11/2024

Bundið slitlag í Árneshrepp

Grjótskriðu í Kaldbakskleif rutt í burt í veturÍ skýrslunni Vaxtarsamningur Vestfjarða sem út kom á dögunum er fjallað um ferðamannaleiðir á Vestfjörðum. Mælt er með að þegar verði hafist handa við að endurbyggja malarvegi að þeim stöðum sem mest aðdráttarafl hafi fyrir ferðamenn. Þar kemur fram að vegir út á Látrabjarg og yfir á Rauðasand annars vegar og norður í Árneshrepp (frá Drangsnesvegi) hins vegar ættu að hafa forgang. Í tímaáætlun er gert ráð fyrir að lokið verði við veg með bundnu slitlagi árið 2016, samtals 90 kílómetra.

Auk Strandavegar í Árneshrepp (nr. 643) sem fjallað er um í Vaxtarsamningum, er fjallað sérstaklega um nýjan veg um Arnkötludal og Gautsdal. Aðrir vegir og vegabætur eru hins vegar ekki nefndir sérstaklega.

Það er iðnaðarráðuneytið sem gefur skýrsluna út, en í verkefnisstjórn um aðgerðir í byggðamálum fyrir Vestfirði eru Baldur Pétursson, deildarstjóri í Iðnaðarráðuneytinu, Kristján G. Jóhannsson framkvæmdastjóri á Ísafirði, Halldór Halldórsson bæjarstjóri á Ísafirði, Þórólfur Halldórsson sýslumaður á Patreksfirði og Ásdís Leifsdóttir sveitarstjóri á Hólmavík.

Starfsmenn nefndarinnar eru Guðmundur Guðmundsson frá Byggðastofnun, Aðalsteinn Óskarsson hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða og Hrefna Magnúsdóttir hjá Atvinnuþróunarfélagi Vestfjarða.