25/11/2024

Menntun og starf Páls Björnssonar í Selárdal

Vísindaporti Háskólaseturs Vestfjarða um Pál Björnsson prófast í Selárdal, sem frestað var síðastliðinn föstudag vegna veðurs, fer fram nú á föstudaginn 31. október klukkan 12.10. Þar mun Gunnar Marel Hinriksson, sagnfræðingur fjalla um menntun, starf og aðstæður Páls. Þess má geta að Vísindaportið verður einnig aðgengilegt í gegnum fjarfundabúnað í Grunnskólanum á Hólmavík.

Af eftirminnilegum persónum 17. aldar hefur prófasturinn í Selárdal helst getið sér nafn fyrir framgöngu sína í galdramálum, sitjandi í afdalabrauðinu Selárdal yst í Arnarfirði. En í þessu erindi verður reynt að endurmeta starf Páls og rætt um hverjir möguleikar hans voru heim kominn með hæstu meðmæli frá Hafnarháskóla, hvort Selárdalur hafi í raun verið afdalabrauð og hvernig Páll vann að því að koma ritverkum sínum á framfæri síðar á ævinni. Erindið var áður flutt á ráðstefnunni Menntun og menning í Skálholtsstifti 1620-1730 sem haldin var í Skálholtsskóla dagana 17.-19. október 2008.

Gunnar Marel Hinriksson lauk B.A.-prófi í sagnfræði frá Háskóla Íslands 2007 og hefur verið skiptinemi við háskólann í Tübingen í Þýskalandi og Kaupmannahafnarháskóla. Gunnar hefur birt greinar um stríðshjálparskattheimtu 1681, byggðasögu Kópavogs á 17. og 18. öld og kvikfjártalið 1703. Hann vinnur á Þjóðskjalasafni Íslands og leggur stund á meistaranám í sagnfræði við HÍ auk þess sem hann situr í stjórn Sögufélags Árnesinga.