22/11/2024

Göngum til góðs á laugardag

Göngum til góðs er á morgun, laugardaginn 4 október. Að þessu sinni rennur söfnunarféð óskert til verkefnis Rauða krossins um sameiningu fjölskyldna í Kongó. Það er því sérlega vel til þess fallið að Íslendingar noti tækifærið til að sameinast um að ganga til góðs og leggja sitt að mörkum til að sameina fjölskyldur á átakasvæðum. Þeir sem ekki sjá sér fært að ganga eru beðnir að taka vel á móti sjálfboðaliðum Rauða krossins og vera með reiðufé tilbúið til að setja í baukinn.

Í fréttatilkynningu frá Rauða Krossinum á Hólmavík kemur fram að þar á bæ er vonast til að sem flestir sjái þér fært að ganga til góðs á Ströndum laugardaginn 4. október. Söfnunin hefst kl. 14.00 á Hólmavík og er sjálfboðaliðum bent á að koma í sundlaugina og skrá sig. Ganga til góðs og fá frítt í sund á eftir ásamt öðrum þakklætisvottum fyrir að sjá af smá tíma öðrum til góðs.