Nú hefur Vinnumálastofnun og Félagsmálaráðuneytið auglýst styrki til Atvinnumála kvenna lausa til umsóknar og er umsóknarfrestur til 28. september næstkomandi. Til umráða nú eru 50 milljónir sem að verður úthlutað til kvenna sem hafa góðar viðskiptahugmyndir. Að þessu sinni verður hægt að sækja um styrki til gerðar viðskiptaáætlana, markaðs- og kynningarmála, þróunarvinnu af ýmsu tagi og hönnunar. Nýnæmi í styrkveitingum að þessu sinni er að konur sem hafa fullmótaða viðskiptaáætlun geta sótt um styrk vegna launakostnaðar í allt að 6 mánuði. Ekki eru veittir styrkir til stærri fjárfestinga í aðstöðu, tækjum og búnaði.
Forsendur þess að umsóknir séu styrkhæfar eru að verkefnið sé í eigu konu/kvenna og stjórnað af konu, að það feli í sér atvinnusköpun til frambúðar og feli í sér nýnæmi eða nýsköpun og að viðskiptahugmynd sé vel útfærð.
Auk styrkja sem úthlutað verður þjónusta við konur sem hafa hug á stofnun fyrirtækja aukin til muna. Í því skyni hefur verið sett upp heimasíða þar sem að hægt verður að fá ráðgjöf og fræðslu auk þess sem sett verður upp samfélagsvefur kvenna í atvinnurekstri. Á síðunni verður einnig hægt að nálgast margvíslegar upplýsingar um stofnun og rekstur fyrirtækja auk annarra hagnýtra upplýsinga en slóðin á síðuna er www.atvinnumalkvenna.is.
Styrkir til atvinnumála kvenna eiga sér sögu frá því árið 1991 en þá ákvað þáverandi og núverandi félagsmálaráðherra, Jóhanna Sigurðardóttir að veita styrki til kvenna með góðar viðskiptahugmyndir.
Síðan þá hafa styrkir verið auglýstir árlega og hafa 327 konur fengið styrki til að vinna að viðskiptahugmyndum sínum sem margar hverjar hafa orðið að fyrirtækjum í rekstri í dag.
Á síðasta ári var ákveðið að auka við fjármagn til þessara styrkja og eins og fyrr segir eru á þessu ári fimmtíu milljónir til úthlutunar auk þess sem að nú hefur verið ráðinn starfsmaður til að sinna sjóðnum ásamt ráðgjöf og heimasíðu. Starfsmaðurinn heitir Ásdís Guðmundsdóttir og hefur hún starfsaðstöðu á skrifstofu Vinnumálastofnunar á Sauðárkróki þar sem hún sinnir þjónustu við konur um allt land.
Hámarksstyrkur í ár er kr. 2.000.000 en ekki eru veittir styrkir sem eru lægri en kr. 300.000. Umsóknarfrestur er til 28. september og sækja skal rafrænt um á heimasíðunni www.atvinnumalkvenna.is.